Plastrusl flýtur á sjónum við Norðurheimskautið að því er fram kom í rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu vísindaritsins Polar Biology, en plastrusl hefur ekki áður fundist á yfirborði sjávar svo norðarlega. Í rannsókninni var þyrlu flogið yfir Framsund milli Grænlands og Svalbarða (á svæði u.þ.b. 1.500 km norðaustur af Melrakkasléttu) auk þess sem sama svæði var skoðað úr skipsbrú. Þarna fannst reyndar „aðeins“ 31 hlutur úr plasti á 5.600 km langri leið, en þar sem allar athuganir voru gerðar úr 18 m hæð yfir sjávarborði náði talning einungis til stórra plaststykkja. Ekki er vitað hvernig plastið barst þarna norðureftir, en það kann að hafa losnað úr sjötta plastfláka úthafanna sem líklega er að myndast í Barentshafi. Aukin skipaumferð kann einnig að hafa sitt að segja í þessu sambandi. Þéttleiki plasts á hafsbotni á sama svæði er talinn vera 10-100 sinnum meiri en á yfirborðinu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).