Rafbíllinn Nissan Leaf er umhverfisvænsti bíllinn á sænskum markaði að mati dómnefndar samtakanna Gröna bilister. Samtals voru 35 tegundir bíla tilnefndar í tveimur flokkum, annars vegar sem besti bíllinn fyrir fólk með venjulegar tekjur og hins vegar sem besti fyrirtækjabíllinn. Nissan Leaf stóð uppi sem sigurvegari í báðum flokkum, en í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að þetta sé mest seldi rafbíll í heimi, að drægni 2016-árgerðarinnar sé meira en áður og dugi nú í flestar ferðir, að bíllinn fái hæstu mögulegu einkunn fyrir öryggi og sé talsvert ódýrari en keppinautarnir. Í umsögn um fyrirtækjabíla kemur einnig fram að Nissan Leaf hafi meiri markaðslega þýðingu en flestir keppinautanna, þar sem hann sé auðþekktur frá hefðbundnum bílum. Þegar úrslitin voru kynnt minnti Johanna Grant, formaður Gröna bilister, á að umhverfisvænsti bílstjórinn sitji ekki alltaf í umhverfisvænsta bílnum, því að besti kosturinn sé að ferðast á hjóli eða í lest, sé þess kostur.
(Sjá fréttatilkynningu Gröna bilister 1. febrúar).