Barnakerrur innihalda skaðleg efni

barnavagnar_160Helmingur af þeim barnakerrum sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu á dögunum reyndust innihalda hormónaraskandi og/eða krabbameinsvaldandi efni í áklæði, ólum, regnhlífum, öryggisslám eða handföngum. Efni á borð við TCPP (trísklóróísóprópýl-fosfat), klóróparaffín og naftalín fundust í fjórum kerrum af átta. Tvö fyrrnefndu efnin eru notuð sem eldvarnarefni og sem plastmýkingarefni en naftalín er tjöruefni. Bannað er að nota TCPP í leikföng og vörur sem börn stinga upp í sig, en barnavagnar falla ekki undir þær reglur. Klóróparaffín er á lista Umhverfisstofnunar Danmerkur yfir óæskileg efni en notkun þess er ekki bönnuð. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð í öllum vörum ætluðum börnum en ekki einungis leikföngum.
(Sjá frétt Tænk í dag).

Þurfa fiskar hárnæringu?

QACsFjórgreind ammóníumsambönd (QACs) fundust í öllum sýnum sem tekin voru í afrennsli skólphreinsistöðva á Norðurlöndunum og í öllum sýnum sem tekin voru úr sjávarseti og fiskum, að því er fram kemur í nýrri norrænni skýrslu sem gefin hefur verið út og kynnt undir nafninu „Þurfa fiskar hárnæringu?“. Fjórgreind ammóníumsambönd, svo sem behentrímóníum, eru mikið notuð í neytendavörur á borð við mýkingarefni, þvottaefni, rotvarnarefni, hárnæringu og aðrar snyrtivörur og berast síðan út í náttúruna með fráveituvatni. Hingað til hefur lítil áhersla verið lögð á mælingar á styrk þessara efna, en þessar niðurstöður þykja gefa tilefni til að fylgjast betur með framvegis. Þó að lítið sé vitað um eiturefnafræðilega eiginleika efnanna var styrkur þeirra það hár í mörgum af sýnunum að líklegt verður að teljast að þau séu farin að hafa áhrif á lífríki sjávar á Norðurlöndunum.
(Sjá samantekt Nordic Screening frá 26. nóvember).