Helmingur af þeim barnakerrum sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu á dögunum reyndust innihalda hormónaraskandi og/eða krabbameinsvaldandi efni í áklæði, ólum, regnhlífum, öryggisslám eða handföngum. Efni á borð við TCPP (trísklóróísóprópýl-fosfat), klóróparaffín og naftalín fundust í fjórum kerrum af átta. Tvö fyrrnefndu efnin eru notuð sem eldvarnarefni og sem plastmýkingarefni en naftalín er tjöruefni. Bannað er að nota TCPP í leikföng og vörur sem börn stinga upp í sig, en barnavagnar falla ekki undir þær reglur. Klóróparaffín er á lista Umhverfisstofnunar Danmerkur yfir óæskileg efni en notkun þess er ekki bönnuð. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð í öllum vörum ætluðum börnum en ekki einungis leikföngum.
(Sjá frétt Tænk í dag).