Bílaframleiðandinn Honda hefur sett upp vetnisáfyllingarstöð við verksmiðjur sínar í Torrance í Kaliforníu. Þetta er liður í undirbúningi fyrirtækisins fyrir næstu kynslóð vetnisbíla, sem kynnt verður árið 2015 í Bandaríkjunum og Japan. Stöðin verður jafnframt sýnidæmi og prófunarstöð fyrir nýjan staðal í vetnisáfyllingu sem Honda vill að tekinn verði upp. Staðallinn nefnist MC Fill og byggir á 700 bara þrýstingi. Með þessari tækni á að vera hægt að stytta áfyllingartímann um allt að 45% frá því sem áður hefur þekkst, sem þýðir að það ætti ekki að taka meira en 3 mínútur að fylla geyma vetnisbíls við venjulegar aðstæður. Næsta kynslóð vetnisbíla frá Honda á að komast um 500 km á hverjum tanki og efnarafalarnir eiga að rúmast í venjulegu vélarrúmi.
(Sjá frétt Hybridcars.com 4. mars).