Þýska bókaforlagið Reclam Verlag fékk í dag afhenta staðfestingu á því að það hefði staðist kröfur Bláa engilsins, umhverfismerkis Þýskalands, og er þar með orðið fyrsta umhverfismerkta forlagið þar í landi. Vottunin gildir fyrir kiljuútgáfu forlagsins, en þarna er um að ræða elsta og stærsta kiljuforlagið í Þýskalandi með samtals um 3.000 útgefnar kiljur. Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál í forlaginu síðustu 10 ár og síðan 2004 hefur þar eingöngu verið notaður endurunnin pappír. Nú hefur forlagið einnig þróað leið til að nota endurunnin pappír í kápur. Blái engillinn gerir strangar kröfur um notkun efnavöru, sjálfbæra nýtingu skóga og lágmörkun loftslagsáhrifa í allri umhverfismerktri starfsemi.
(Sjá frétt Der Blaue Engel í dag).
Greinasafn fyrir merki: Blái engillinn
Umhverfismerktir hvarfakútar
Þýsku fyrirtækin HJS Emission Technology og LRT Automotive fengu á dögunum leyfi til að merkja hvarfakúta sem fyrirtækin framleiða með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum. Umræddir kútar eru varahlutir sem gripið er til ef skipta þarf um hvarfakúta í bílum. Kútarnir eru seldir með 5 ára ábyrgð og til að fá Bláa engilinn þurfa þeir að standast strangar kröfur um hreinsun útblásturs allan þann tíma. Virkni kútanna skal prófuð sérstaklega einu sinni á ári til að staðfesta afköst þeirra og endingu. Umræddir kútar eru fyrstu umhverfismerktu hvarfakútarnir á markaðnum.
(Sjá fréttatilkynningu Bláa engilsins 10. febrúar).
Fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símarnir
Þýska símafyrirtækið Telekom Deutschland er þessa dagana að setja á markað fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símana. Símtækin eru vottuð með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum, en vottunin er m.a. staðfesting á því að tækin noti lítið rafmagn, að auðvelt sé að skipta um rafhlöður og auka þar með endinguna, að tækin innihaldi ekki skaðleg efni, að rafsegulsvið sé í lágmarki og að notandi geti sjálfur stillt sendistyrkinn, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Bláa engilsins 1. mars).
Svanurinn í fremstu röð
Svanurinn og Umhverfismerki ESB eru meðal 10 þekktustu umhverfismerkja í heimi samkvæmt nýrri skýrslu frá IMD Business School. Í viðamikilli könnun sem skólinn gerði meðal stjórnenda fyrirtækja var Svanurinn jafnframt nefndur sérstaklega ásamt Bláa englinum í Þýskalandi sem fyrirmynd annarra merkja. Í skýrslunni er mælt með því að fyrirtæki haldi sig við umhverfismerki sem taka tillit til alls lífsferilsins, en líta ekki aðeins á einstaka þætti, svo sem orkunotkun. Einhliða merki geri neytendum erfitt fyrir að velja besta kostinn.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð í gær).