Sólarsellur með grafenfilmu gætu framleitt raforku í rigningu

160406075516_1_540x360Filma úr efninu grafen, sem hægt er að vinna úr grafíti, gæti gert það mögulegt að framleiða raforku í sólarsellum í rigningu. Grafen er tvívítt form kolefnis sem hefur þann eiginleika að leiða vel rafmagn og innihalda mikið af rafeindum sem geta ferðast óbundnar um efnið. Regnvatn inniheldur sölt sem leysast upp í jákvætt og neikvætt hlaðnar jónir. Þegar regndroparnir snerta yfirborð grafenfilmunnar tekur grafenið til sín óbundnar rafeindir en vatnið verður þeim mun ríkara af jákvætt hlöðnum jónum, svo sem natríum, kalsíum og ammóníumjónum. Þannig myndast tvöfalt lag rafeinda og jákvætt hlaðinna jóna og skilyrði skapast til að mynda spennu og rafstraum. Frekari þróun tækninnar getur aukið afköst sólarsella þar sem hægt verður að framleiða rafmagn þótt sólar njóti ekki.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Stærsti fljótandi sólarorkugarður Evrópu í bígerð

fljotandiVinna við uppsetningu stærsta fljótandi sólarorkugarðs í Evrópu er hafin á uppistöðulóni Queen Elizabeth II stíflunnar á Thames. Alls verður rúmlega 23.000 sólarsellum með samanlagt uppsett afl upp á 6,3 MW komið fyrir á lóninu og munu þær þekja um 10% af yfirborði þess. Garðurinn er í eigu Thames Water sem er veitufyrirtæki í London sem sér um rekstur veitukerfa fyrir neysluvatn og skólp á svæðinu. Fyrirtækið hefur einsett sér að mæta 33% af orkuþörf sinni fyrir árið 2020 með eigin framleiðslu á endurnýjanlegri orku og er uppsetning sólarorkugarðsins liður í þeirri viðleitni. Um leið vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að uppfylla Parísarsamninginn og draga úr losun.
(Sjá fréttatilkynningu Thames Water 15. febrúar).

Statoil stofnar tugmilljarða sjóð fyrir græna orku

VindmøllerNorski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).

Stærsta sólarorkuver heims gangsett í Marokkó

5609 (160x96)Í gær kveikti Múhammeð VI, konungur Marokkó, á fyrsta áfanga sólarorkuvers sem verður það stærsta í heimi þegar það verður fullbyggt árið 2018. Verið er staðsett í útjaðri Sahara-eyðimerkurinnar við borgina Ouarzazate og verður uppsett afl þess samtals 580 MW þegar upp verður staðið, en fyrsti áfanginn er 160 MW. Fullbúið á verið að geta séð um 1,1 milljón manna fyrir nægri raforku og með tilkomu þess mun losun kolefnis út í andrúmsloftið minnka um hundruð þúsunda tonna á ári. Um 4 milljarðar Bandaríkjadala (um 500 milljarðar ísl. kr.) hafa verið lagðir í verið, en bygging þess og annarra stórra sólarorkuvera víða um heim er talin geta lækkað framleiðslukostnað raforku frá sólarsellum í náinni framtíð um allt að 15% fyrir hver 5 GW sem bætast við heildaraflið. Stjórnvöld í Marokkó stefna að því að árið 2020 verði hlutdeild endurnýjanlegrar orku í landinu komin í 42% og í 52% árið 2030. Áformin verða væntanlega kynnt nánar á næstu ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP22) sem haldin verður í Marokkó 7.-18. nóvember nk.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

1.000 km sólarvegur í Frakklandi

1000solarfranceFrönsk stjórnvöld hyggjast leggja 1.000 km af sólarvegum á næstu 5 árum, en með sólarvegum er átt við vegi sem þaktir eru sólarsellum til raforkuframleiðslu. Ef allt gengur upp getur þessi alllangi vegarspotti séð um 5 milljónum manns fyrir raforku, en það samsvarar 8% af íbúum Frakklands. Um 4 metrar af sólarvegi eru taldir duga til að fullnægja raforkuþörf einnar fjölskyldu, að upphitun frátalinni. Að sögn Ségolène Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, er þegar búið að bjóða verkið út og er gert ráð fyrir að fyrstu tilraunir með þessa nýjung verði gerðar í vor. Yfirborgð sólarveganna er gert úr 7 mm sólarfilmu sem hefur verið í þróun síðustu 5 ár og var tilbúin til framleiðslu í október 2015. Burðarþolið er nóg til að taka við umferð flutningabíla og viðnámið nóg til að vegirnir verði ekki óþægilega hálir. Ségolène Royal hefur lagt til að lagðir verði sérstakir skattar á bensín til að fjármagna vegabætur af þessu tagi, enda sé lag til þess nú þegar olíuverð er lágt.
(Sjá frétt Global Construction Review 26. janúar).

Sólarvegurinn gerir það gott

solarENNFyrsti sólarselluhjólastígur heimsins hefur skilað betri árangri en menn þorðu að vona, en þessa dagana er eitt ár liðið síðan þessi 70 m langi hjólastígur í útjaðri Amsterdam var opnaður fyrir umferð. Yfirborðslagið á stígnum er gert úr 3 mm þykkum glerhúðuðum sólarsellum sem framleiða rafmagn fyrir ljósastaura eða til annarra nota. Á fyrstu sex mánuðunum framleiddi stígurinn samtals rúmlega 3.000 kwst af raforku, eða sem samsvarar orkuþörf eins heimilis í u.þ.b. heilt ár.
(Sjá frétt ENN í dag).

Fyrsti sólarorkuknúni flugvöllurinn

Kerala (160x104)Alþjóðaflugvöllurinn Cochin í Keralaríki á Indlandi er fyrsti flugvöllurinn í heimi sem gengur eingöngu fyrir sólarorku. Þann 18. ágúst sl. voru teknar í notkun 46.000 sólarsellur á um 18 hektara svæði í grennd við flugvöllinn. Sólarorkuverið framleiðir um 50-60 MWst af raforku á sólarhring, en dagleg orkuþörf flugvallarins er um 48 MWst/sólarhring sem samsvarar orkunotkun u.þ.b. 10 þúsund heimila. Umframorkan er send inn á dreifikerfið og nýtist þannig öðrum raforkunotendum.
(Sjá frétt ENN í gær).

Koltvísýringi breytt í „demanta af himnum“

150819083117_1_540x360 (160x160)Hópur efnafræðinga við George Washington háskólann telur sig hafa fundið hagkvæma aðferð til að framleiða koltrefjar úr koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Aðferðin byggir á rafgreiningu, þar sem andrúmsloft er leitt niður í 750 stiga heita raflausn með bráðnum karbónötum innan um rafskaut úr stáli og nikkel. Við þessar aðstæður klofna koltvísýringssameindir í kolefni og súrefni, kolefnið sest á stálskautið og myndar trefjar sem hægt er að fjarlægja og nota til framleiðslu á ýmsum varningi. Gert er ráð fyrir að sólarorka sé notuð við framleiðsluna og er orkukostnaður áætlaður samtals um 1.000 dollarar á tonnið, sem er aðeins brot af söluverðmæti afurðarinnar. Framleiðslan er enn á tilraunastigi, en með því að nýta sólarorku á 10% af flatarmáli Sahara-eyðimerkurinnar væri að sögn aðstandenda hægt að fjarlægja nógu mikinn koltvísýring úr andrúmsloftinu á 10 árum til að styrkur efnisins verði sá sami og hann var fyrir upphaf iðnbyltingarinnar.
(Sjá frétt Science Daily 19. ágúst).

Ríó fyrst til að uppfylla borgarstjórasamkomulagið

28874 (160x107)Ríó de Janeiro er fyrsta borgin sem nær að standa að öllu leyti við „Borgarstjórasamkomulagið“ (Compact of Mayors). Allar borgir heims geta gerst aðilar að samkomulaginu sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera borgirnar betur í stakk búnar til að takast á við loftslagsbreytingar. Borgaryfirvöld í Ríó hafa gengið frá metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, komið á skráningarkerfi fyrir losun og byggt upp kerfi til að fylgjast með loftslagstengdum áhættuþáttum í borginni. Þá hefur borgin sett sér markmið um 20% samdrátt í losun fyrir árið 2020, sem jafngildir samdrætti upp á 2,3 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum. Þá kynntu borgaryfirvöld í síðustu viku áform um að lýsa upp nýja 145 km hraðbraut með sólarorkuljósastaurum. Staurarnir þurfa um 2,8 GWst af raforku á ári og verða sjálfum sér nægir með hana. Þegar árangur borgaryfirvalda í Ríó var kynntur sagði borgarstjórinn Eduardo Paes m.a. að borgir gegndu lykilhlutverki í loftslagsmálum og væru í bestu aðstöðunni til að stuðla að raunverulegum breytingum.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Tesla horfir til Þýskalands

tesla_160Rafbílaframleiðandinn Tesla bindur miklar vonir við sölu „heimarafhlöðunnar“ í Þýskalandi, enda séu Þjóðverjar mjög meðvitaðir um umhverfismál og í fararbroddi í heiminum í nýtingu sólarorku. Tesla kynnti rafhlöðuna („orkuvegginn“ (Tesla Powerwall)) í síðustu viku. Hana er t.d. hægt að festa á vegg í bílskúrnum og í henni er hægt að geyma umframorku sem grípa má til þegar rafmagnið fer eða þegar orkuframboð er lítið og verðlag hátt. Rafhlaðan auðveldar neytendum þannig að framleiða og geyma sína eigin raforku án tengingar við flutningskerfi og opnar m.a. möguleika á að nýta sólarorku á nóttu sem degi. Markmið Tesla með orkuveggnum er að „umbreyta algjörlega orkuinnviðum heimsins í átt að fullkomlega sjálfbæru kolefnishlutleysi“.
(Sjá frétt ENN 5. maí).