Mikil uppsveifla í ólöglegri sölu villtra dýra og plantna

tigerUm 33.000 villt dýr og plöntur voru boðin ólöglega til sölu á internetinu á sex vikna tímabili snemma á þessu ári samkvæmt nýrri rannsókn á ólöglegum viðskiptum með villt dýr og plöntur sem Alþjóðasjóður fyrir velferð dýra (IFAW) stóð fyrir í 16 löndum. Heildarverðgildi þessa varnings var um 7 milljónir breskra punda (tæplega 1,4 milljarðar ísl. kr.). Í rannsókninni fundust meðal annars auglýsingar um lifandi tígrisdýr, órangútana, simpansa, górillur, eðlur og froska, auk nashyrnings- og fílabeina og snjóhlébarða- og ísbjarnarfelda svo eitthvað sé nefnt. Flestar auglýsingar fundust á kínverskum heimasíðum, en rússneskar og úkraínskar síður voru einnig áberandi. Samtökin telja mikla uppsveiflu hafa orðið í þessum viðskiptum á síðustu árum og benda á að rannsóknin hafi aðeins náð yfir örlítinn hluta netheima. Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa nú fengið nokkur mál úr rannsókninni til skoðunar.
(Sjá frétt the Guardian í dag).