Mannkynið hefur eytt 10% af víðernum jarðar á síðustu 25 árum að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum. Sérfræðingar óttast að með sama áframhaldi verði engin víðerni eftir óröskuð eftir 100 ár. Frá árinu 1993 hafa um 3,3 milljónir ferkílómetra af víðernum verið lagðir undir athafnir manna, en það samsvarar 33-földu flatarmáli Íslands. Um þriðjungur þessarar eyðingar hefur átt sér stað á Amazonsvæðinu og 14% í miðhluta Afríku, þar sem m.a. var að finna þúsundir tegunda af lífverum, þ.á m. skógarfíla og simpansa. Þessi þróun mála kemur ekki eingöngu hart niður á tegundum í útrýmingarhættu, heldur felur hún líka í sér mikla loftslagsógn þar sem gríðarlegt magn af kolefni losnar út í andrúmsloftið við eyðingu skóga. Víðerni eru í þessu samhengi skilgreind sem svæði sem eru „að miklu leyti ósnortin vistfræðilega“ og „að mestu laus við truflun af mannavöldum“.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: fílar
Mikil uppsveifla í ólöglegri sölu villtra dýra og plantna
Um 33.000 villt dýr og plöntur voru boðin ólöglega til sölu á internetinu á sex vikna tímabili snemma á þessu ári samkvæmt nýrri rannsókn á ólöglegum viðskiptum með villt dýr og plöntur sem Alþjóðasjóður fyrir velferð dýra (IFAW) stóð fyrir í 16 löndum. Heildarverðgildi þessa varnings var um 7 milljónir breskra punda (tæplega 1,4 milljarðar ísl. kr.). Í rannsókninni fundust meðal annars auglýsingar um lifandi tígrisdýr, órangútana, simpansa, górillur, eðlur og froska, auk nashyrnings- og fílabeina og snjóhlébarða- og ísbjarnarfelda svo eitthvað sé nefnt. Flestar auglýsingar fundust á kínverskum heimasíðum, en rússneskar og úkraínskar síður voru einnig áberandi. Samtökin telja mikla uppsveiflu hafa orðið í þessum viðskiptum á síðustu árum og benda á að rannsóknin hafi aðeins náð yfir örlítinn hluta netheima. Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa nú fengið nokkur mál úr rannsókninni til skoðunar.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
WildLeaks gegn ólöglegum veiðum
WildLeaks, síða í anda WikiLeaks, hefur fengið 24 ábendingar um ólöglega veiði og ólöglega sölu á villtum dýrum síðan vefurinn var opnaður fyrir 3 mánuðum. Ólögleg viðskipti með villt dýr hafa aukist undanfarið en iðnaðurinn veltir árlega um 10-20 milljörðum bandaríkjadala (1.100-2.200 milljörðum ísl. kr.) sem gerir hann að fjórða stærsta svarta markaði heimsins á eftir eiturlyfjasölu, mansali og vopnaviðskiptum. Andrea Crosta, forsprakki síðunnar, segir WildLeaks vera mikilvægan vettvang fyrir fólk til að koma áleiðis upplýsingum um ólöglegt athæfi, þar sem yfirvöldum sé iðulega ekki treystandi vegna spillingar og mútuþægni. Ólögleg viðskipti með villt dýr tengjast oftar en ekki skipulögðum glæpasamtökum og því mikilvægt að nafnleynd heimildarmanna sé algjör. Hingað til hafa m.a. borist vísbendingar um ólöglegar fílaveiðar og fílabeinssölu í Hong Kong, veiðar á Súmatra tígrisdýrum, veiðar á hlébörðum og ljónum í Suður-Afríku, flutning simpansa frá Líberíu, ólöglegar fiskveiðar í Alaska og ólöglegan innflutning afrískra dýraafurða til Bandaríkjanna.
(Sjá frétt the Guardian 12. júní).