Mengunarsíur í strætisvagna bæta loftgæði í Kaupmannahöfn

busserLoftmengun á götum Kaupmannahafnar hefur minnkað verulega eftir að nýjum úblásturssíum var komið fyrir í 300 strætisvögnum þar í borg. Síurnar minnka mengun í útblæstri um 95% og munar þar mestu um samdrátt í útblæstri köfnunarefnisoxíða (NOx) og svifryks sem eru taldar vera meðal helstu orsaka krabbameins og öndunarfærasjúkdóma í borginni. Þessi samdráttur í mengun samsvarar því að 15-20% af mest mengandi ökutækjum borgarinnar væru tekin úr umferð. Verkefnið er hluti af samstarfi Kaupmannahafnarborgar, sveitarfélagsins Fredriksberg, flutningafyrirtækisins Movia og Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 29. febrúar).

Loftmengun eykur líkur á offitu

beijingLoftmengun í því magni sem þekkist í Peking truflar starfsemi hjarta- og æðakerfis, lungna og öndunarfæra og eykur auk þess líkur á offitu, ef marka má nýja rannsókn frá Duke University. Rannsóknin var gerð á músum á tilraunastofu þar sem hópur af músum bjó í Peking-lofti og samanburðarhópur í hreinu lofti. Eftir um 20 daga var orðinn mikill munur á líkamlegu ástandi músanna. Mýsnar sem höfðu verið í menguðu lofti voru almennt þyngri en hinar þrátt fyrir sömu matarskammta. Þær höfðu einnig 50% hærra lágþéttnikólesteról, 46% meira þríglýseríð, 97% hærra samanlagt kólesterólmagn og meira insúlínþol, sem er undanfari sykursýki 2. Þessar niðurstöður eru í takt við fyrri rannsóknir sem gefa til kynna að loftmengun auki insúlínþol og breyti efnaskiptum í fituvef. Samkvæmt þessu má ætla að barátta gegn loftmengun geti skipt miklu máli til að sporna gegn offitu hjá fólki, en offita er nú þegar mikil ógn við lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).

2.500 mengandi fyrirtækjum lokað í Peking

Yfirvöld í Peking hafa tilkynnt að þau hyggist loka 2.500 litlum mengandi fyrirtækjum í borginni á þessu ári til að stuðla að bættum loftgæðum. Í desember var öðru sinni lýst yfir rauðu ástandi í borginni vegna loftmengunar, en þá er skólum lokað og bannað að vinna utanhúss. Á árinu 2015 mældist fínt svifryk (<2,5 µm) að meðaltali 80,6 míkrógrömm á rúmmetra í Peking, en það er um 1,3 sinnum meira en landslög kveða á um. Fyrirtækin sem lokað verður eru m.a. veitingastaðir, hótel og verkstæði. Yfirvöld í Kína hyggjast draga úr kolabrennslu og loka mengandi stóriðju, en ólíklegt þykir að landið nái markmiðum sínum um loftgæði fyrr en eftir 2030.
(Sjá frétt Reuters 9. janúar).

Rafvæðing skipa hafin hjá Kystverket

1200048372 (160x90)Strandlengjustofnun Noregs (Kystverket) hefur ákveðið að nota tvinntækni í fjölnotaskipinu OV Bøkfjord sem hefur verið í smíðum frá því á árinu 2014. Gengið var frá samningum við Rolls Royce rétt fyrir áramót um afhendingu á rafgeymum og öðrum búnaði sem þessu tengist. Breytingin mun seinka afhendingu skipsins, en Kystverket hyggst einnig gera kröfu um tvinntækni í systurskipi sem sett verður í útboðsferli á næstu vikum. Enn fremur er verið að skoða hvort mögulegt sé að breyta tveimur eldri skipum stofnunarinnar í tvinnskip, en með því móti ætti að vera hægt að draga verulega úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Áætlað er að stofnkostnaður hvers skips hækki um 15 milljónir norskra króna (um 225 millj. ísl. kr.) við þessa breytingu, en á móti er gert ráð fyrir allt að 25% sparnaði í eldsneytiskaupum sem þýðir að breytingin borgar sig upp á u.þ.b. 10 árum. Tvinntæknin gerir það mögulegt að nýta dísilvélar skipanna mun betur en ella, viðhaldsþörf minnkar og hægt verður að keyra skipin alfarið á rafmagni þegar þau liggja við bryggju og draga þannig úr hávaða og loftmengun.
(Sjá frétt Teknisk Ukeblad 5. janúar).

Um 430.000 manns deyja vegna loftmengunar í Evrópu

loftmengunÁ hverju ári má rekja um 430.000 dauðsföll í Evrópu til loftmengunar samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að loftmengun sé helsta dánarorsök í álfunni þar sem mengunin stuðli að hjartasjúkdómum, krabbameini og vandamálum í öndunarfærum og dragi þannig úr lífslíkum og lífsgæðum Evrópubúa. Um 87% Evrópubúa í þéttbýli búa við svifryksmengun sem er ofan við viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Viðmiðunarmörk ESB eru mun lægri en mörk WHO og bjuggu samkvæmt þeim aðeins 9% íbúa við óviðunandi mengun. Koma mætti í veg fyrir um 144.000 ótímabær dauðsföll árlega ef Evrópusambandið myndi innleiða staðla WHO. Mest loftmengun í Evrópu mælist í Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Frakklandi og Bretlandi.
(Sjá frétt EDIE 30. nóvember).

Danska gervinefið slær í gegn

NoseBrennisteinsmengun í loftinu yfir Danmörku hefur minnkað um nær 60% frá síðustu áramótum í kjölfar hertra reglna um losun brennisteinstvíoxíðs frá skipum og aukins eftirlits. Þennan mikla árangur má m.a. rekja til „gervinefs“ sem komið var fyrir á Stórabeltisbrúnni á síðasta ári og þefar nú uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum frá „nefinu“ fara 98% skipa að lögum hvað brennisteinsmengun varðar, en til að standast hinar nýju kröfur hafa mörg skipanna þurft að skipta um eldsneyti og hefur sú breyting mikinn aukakostnað í för með sér fyrir útgerðirnar. Danmörk er fyrsta landið í heiminum sem fylgist með brennisteinsmengun frá skipum með þeim hætti sem þar er gert.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. október).

Loftmengun mæld með snjallsímum

ispexÍ þessum mánuði og þeim næsta munu 500 íbúar Kaupmannahafnar mæla svifryksmengun í nánasta umhverfi sínu með þar til gerðu appi og búnaði sem tengist myndavélum iPhone síma. Þessar mælingar eru hluti af evrópsku verkefni sem gengur undir nafninu iSPEX og hefur það markmiði að kortleggja loftmengun í evrópskum borgum með meiri nákvæmni en áður og auka þannig þekkingu manna á áhrifum loftmengunar á heilsu og umhverfi.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í gær).

Mikið af rafhlöðnum ögnum við umferðaræðar

Rohan JayaratneMun meira er af rafhlöðnum ögnum meðfram umferðaræðum en undir háspennulínum að því er fram kemur í nýrri ástralskri rannsókn. Rafhleðslan gerir það að verkum að fíngert svifryk frá umferð tollir betur en ella í lungum fólks sem andar því að sér, sem aftur eykur hættuna á heilsutjóni vegna megnunar frá umferð.
(Sjá frétt Science Daily 28. maí).

Loftmengun dregur úr fæðingarþyngd

beijing_160Börn sem fæddust mánuði eftir Ólympíuleikana í Peking 2008 voru um 23 g þyngri en börn sem fæddust á sama tíma árs árin 2007 og 2009. Í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stóð gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni, svo sem með því að takmarka umferð, loka stóriðjuverum og stöðva byggingarverkefni. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér 60% samdrátt í styrk brennisteinstvíoxíðs (SO2), 48% minni kolsýring (CO), 43% minna köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og samdrátt í magni svifryks. Raundæmarannsókn Læknaseturs Háskólans í Rochester benti til að meiri fæðingarþyngd á þessu tímabili væri afleiðing af aðgerðum til að draga úr loftmengun. Loftmengun getur haft mikil áhrif á vöxt og þróun fósturs á síðasta stigi meðgöngu, enda fer mikið af líkamlegum vexti, þróun miðtaugakerfis, hjarta- og æðakerfis og vöðvakerfis fram á þessu stigi.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Shell sektað vegna brota á lögum um loftgæði

shell_160Olíurisinn Shell þarf að greiða um 1 milljón bandaríkjadala (um 132 millj. ísl. kr.) í skaðabætur vegna brota á bandarísku loftgæðalögunum (the Clean Air Act). Umhverfisstofnun Bandaríkjanna kærði Shell vegna fjögurra atriða sem tengdust sölu og merkingu á eldsneyti. Þannig stóðust ekki upplýsingar fyrirtækisins um brennisteinsinnihald eldsneytis, sem sagt var innihalda minna en 15 ppm af brennisteini en innihélt í raun allt að 500 ppm. Einnig reyndist eldsneytið í einhverjum tilvikum innihalda of mikið af etanóli og vera of rokgjarnt, auk þess sem fyrirtækið hafði vanrækt lögbundið eftirlit og skráningu. Magn brennisteins og hlutfall etanóls í eldsneyti hefur mikil áhrif á loftgæði auk þess sem rokgjarnt eldsneyti stuðlar að ósonmyndun við yfirborð jarðar.
(Sjá frétt ENN 20. janúar).