Olíumengun í sjó getur veikt blóðrásarkerfi fullvaxinna fiska sem komist hafa í snertingu við olíuna á fósturskeiði. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu tímaritsins Scientific Reports. Fiskarnir líta út fyrir að vera fullkomlega eðlilegir, en hjörtu þeirra þroskast ekki eðlilega, sem leiðir til þess að þeir synda hægar en ella, hafa minna mótstöðuþrek gegn sjúkdómum og eiga almennt minni möguleika á að komast af en aðrir fiskar. Þessar niðurstöður eru taldar geta skýrt hrun síldarstofna fjórum árum eftir Exxon Valdez olíuslysið við Alaska vorið 1989. Um leið felst í þeim vísbending um að breyta þurfi áhættumati vegna olíuslysa, þar sem tjón af slíkum slysum hafi verið vanmetið fram til þessa.
(Sjá frétt Science Daily 8. september).