Fyrirburar fá í sig mikið af skaðlegum efnum á sjúkrahúsum

fyrirburiFyrirburar sem eyða fyrstu mánuðum ævi sinnar á sjúkrahúsi fá í sig mikið magn skaðlegra efna úr tækjum sem notuð eru við ummönnun barnanna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health. Rannsóknin beindist einna helst að DEHP (dí(2-etýlhexýl)þalati) og öðrum þalötum sem notuð eru sem mýkingarefni í plasti, en plast er uppistaðan í stórum hluta lækningatækja og búnaðar á borð við bláæðaleggi, holleggi (svo sem þvagleggi), barkarennur og vökva- og blóðpoka. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að styrkur DEHP hjá fyrirburum sem hafa verið vistaðir lengi á sjúkrahúsi geti verið um 4.000-160.000 sinnum hærri en talið er skaðlaust. Þar sem þalötin bindast ekki plastinu berast þau auðveldlega inn í líkamann og geta raskað hormónastarfsemi hans. Fyrirburar eru einstaklega viðkvæmir þar sem líkami þeirra er enn að þroskast.
(Sjá frétt Science Daily 13. nóvember).

Skaðleg efni í þrykkimyndum á bómullarbolum

tshirt-nr9---03Hormónaraskandi efni fundust í 10 af 15 bómullarbolum með þrykkimynd sem skoðaðir voru í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd&Rön í lok október. Flestar þrykkimyndir á fatnaði eru gerðar úr PVC-plasti og þá er í flestum tilfellum notast við þalöt sem mýkingarefni fyrir plastið. Í einum bolnum fundust t.d. þalötin BBP (bensýlbútýlþalat), DINP (díísónýlþalat) og DIDP (diísódekýlþalat), en styrkur þess síðastnefnda var 14 sinnum hærri en leyfilegt er í leikföngum. Til eru önnur efni sem gera sama gagn (staðgönguefni). Þannig innihéldu þrykkimyndir á fimm bolum sem skoðaðir voru ekkert PVC og þar með engin þalöt. Á næsta ári mun Evrópusambandið (ESB) banna notkun þeirra þalata sem teljast skaðlegust, en Råd&Rön telja bannið ekki vernda neytendur þar sem það nær einungis til vöru sem framleidd er innan ESB.
(Sjá frétt Råd&Rön 22. október).

Nýju þalötin engu betri

DiNPDíísónónýlþalat (DiNP), sem komið hefur í staðinn fyrir díetýlhexýlþalat (DEHP) sem mýkingarefni í PVC-plasti virðist hafa sömu hormónaraskandi eiginleika og fyrirrennarinn samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Karlstad í Svíþjóð. Notkun á DiNP hófst eftir að Evrópusambandið bannaði notkun DEHP í leikfangaframleiðslu vegna hormónarsakandi áhrifa efnisins. Í þessari nýju rannsókn var bilið milli endaþarmsops og limrótar mælt á 196 tæplega tveggja ára gömlum drengjum, auk þess sem greind voru þvagsýni úr mæðrum sömu drengja frá því á 10. viku meðgöngunnar. Í ljós kom fylgni á milli umrædds bils og styrks DiNP í þvagi mæðranna, en þetta gefur vísbendingu um að DiNP hafi hormónaraskandi áhrif á fóstur. Höfundar rannsóknarinnar telja þörf á að endurskoða aðferðir við val á nýjum efnum til að tryggja skaðleysi þeirra betur en nú er gert.
(Sjá frétt SVT 30. október).

Hormónaraskandi efni gera karlmenn æ kvenlegri

anuspenisKarlmenn sem fá í sig hormónaraskandi efni í móðurkviði framleiða minna af testósteróni en aðrir menn og eru með lakari sæðisframleiðslu. Þetta kom fram á ráðstefnu um hormónaraskandi efni sem nýlega var haldin á Danska landspítalanum. Efnin sem um ræðir er m.a. að finna í plasti, húsgögnum, fötum og umbúðum. Dregið hefur verulega úr frjósemi Dana og annarra Evrópubúa á síðustu áratugum og sem dæmi má nefna að aðeins um 23% ungra danskra karlmanna hafa viðunandi sæðisframleiðslu. Auk þess fjölgar sífellt þeim tilfellum þar sem gefa þarf drengjum testósterón til að þeir verði kynþroska. Talið er að kokteiláhrif þalata og annarra hormónaraskandi efna hafi mikið að segja í þessu sambandi og þess vegna er erfitt fyrir vísindamenn að segja til um hvaða einstöku efni skuli bönnuð, öðrum fremur.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Þalöt hægja á framleiðslu testósterons

kremÞalöt  virðast hafa neikvæð áhrif á framleiðslu testósterons hjá fólki sem notar mikið af hreinlætisvörum og plastvörum, en slíkar vörur geta innihaldið nokkurt magn þalata og annarra efna sem trufla starfsemi innkirtla. Í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism var magn testósterons í blóði 2.200 einstaklinga í Bandaríkjunum mælt og samtímis leitað að 13 niðurbrotsefnum þalata í þvagi sömu einstaklinga. Niðurstöðurnar sýndu marktækt samband lágs testósteronsgildis og magns þalata í þvagi. Síðustu 50 ár hefur dregið mjög úr testósteronframleiðslu karlmanna og telja vísindamenn þessa þróun geta haft veruleg neikvæð áhrif á lýðheilsu. Lækkun testósterons hefur neikvæð áhrif á kynþroska ungra pilta auk neikvæðra áhrifa á kynhvöt, kynstarfsemi, orku og heilbrigði beina bæði í körlum og konum á aldrinum 40-60 ára.
(Sjá frétt Science Daily 14. ágúst).

Þalöt í barnavagni

barnevogn-scandia800xMikið magn af díetýlhexýl þalati (DEHP) mældist í skyggni barnavagns af gerðinni Scandia Run í rannsókn sem dönsku neytendasamtökin Tænk stóðu nýlega fyrir. Skyggnið innihélt um 20% DEHP, en leyfilegur styrkur þalata í leikföngum og öðrum ungbarnavörum er 0,1% skv. reglum ESB. Í framhaldi af rannsókninni hefur Tænk sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) og hvatt til þess að vagninn verði tekinn úr sölu. DEHP er eitt af skaðlegustu þalötunum og getur m.a. haft neikvæð áhrif á þroska barna. Þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast en eru ekki bundin plastinu og geta því auðveldlega borist í lífverur við snertingu. Miljøstyrelsen hefur ekki enn brugðist við ábendingu Tænk, en einhverjar verslanir hafa þegar tekið vagninn úr sölu í framhaldi af þessum niðurstöðum.
(Sjá frétt Tænk 31. maí).

Eiturefni í söluvarningi fyrir HM 2014

hm2014Varningur frá Nike, Adidas og Puma sem ætlaður er til sölu í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst í Ríó í næsta mánuði, inniheldur ýmis skaðleg efni yfir leyfilegum mörkum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace, A Red Card for Sportswear Brands. Skýrslan byggir á greiningu á 33 vörutegundum sem settar hafa verið á markað í tilefni af keppninni, nánar tiltekið 21 tegund af fótboltaskóm, 7 bolum, fjórum mismunandi markmannshönskum og hinum opinbera fótbolta mótsins. Óháðar rannsóknarstofur í Þýskalandi og Bretlandi fundu meðal annars perflúorkolefni (PFC), nónýlfenóletoxýlat (NPE), þalöt og dímetýlformamíð (DMF) í vörunum, en þessi efni eru talin vera krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Allir skór sem skoðaðir voru innihéldu bæði þalöt og DMF og 13 skótegundir af 21 innihéldu PFC yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í textílvöru. Fyrirtækin þrjú taka öll þátt í DETOX-verkefni Greenpeace sem hefur það að markmiði að hætta notkun á skaðlegum efnum fyrir árið 2020.
(Sjá frétt Fashion Forum í dag).

Hormónaraskandi efni í flestum ófrískum konum

Gravid ØkoHormónaraskandi efni fundust í miklum meirihluta blóðsýna sem tekin voru úr 565 ófrískum konum í Odense í nýlegri rannsókn á vegum Syddansk Universitet. Þarna var meðal annars um að ræða þalöt, parabena, BPA, tríklósan og perflúoruð efni. Þessi efni er að finna í margs konar vörum, svo sem í leikföngum, lækningatækjum, sólarvörn, snyrtivörum, plasti, byggingarefnum og yfirborðsefnum á húsgögnum, regnfötum og öðrum fatnaði. Hormónaraskandi efni eru talin hafa sérlega skaðleg áhrif á fóstur. Þeir sem stóðu fyrir rannsókninni telja niðurstöðurnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu mála, en hins vegar sé jákvætt að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lægri en gerist og gengur hjá verðandi mæðrum í öðrum Evrópulöndum og vestanhafs. Ábendingar um leiðir til að forðast hormónaraskandi efni á meðgöngunni er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.
(Sjá frétt á heimasíðu Syddansk Universitet 11. apríl).

Dýru barnafötin líka eitruð

TískulygiHelstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).

Verslanir kærðar vegna þalata í leikföngum

EiturFjórar verslanir í Svíþjóð hafa verið kærðar vegna sölu á leikföngum sem innihéldu þalöt yfir leyfilegum mörkum. Brotin komu í ljós við greiningu á 20 mismunandi plastleikföngum sem tekin voru til skoðunar síðasta sumar í sérstöku verkefni um vörur í lágvöruverðsverslunum undir yfirskriftinni „Varor i lågprissegmentet“. Fimm af þessum 20 leikföngum innihéldu of mikið af þalötum og í tveimur verstu tilvikunum var efnasambandið DEHP (dí-2-etýlhexýlþalat) 40-46% af plastinu. Þetta efni eykur líkur á ófrjósemi.
(Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu Gautaborgar 21. janúar).