Styrkur CO2 kominn yfir 400 ppm

noaa_160Meðalstyrkur koltvísýrings í andrúmslofti jarðar fór í fyrsta sinn yfir 400 milljónustuparta (ppm) í mars 2015 samkvæmt mælingum bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Mælingar frá einstökum stöðvum á norðurheimskautssvæðinu og á Hawaii hafa áður sýnt styrk yfir 400 ppm en heimsmeðaltalið hefur aldrei áður mælst svo hátt. Að mati NOAA þýðir þetta að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hefur hækkað vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum um meira en 120 ppm síðan fyrir iðnbyltingu og hefur helmingur af þessari losun (60 ppm) átt sér stað eftir 1980. Gjarnan er miðað við 400 ppm sem viðmiðunarmörk fyrir óafturkræfar breytingar á þjónustu vistkerfa.
(Sjá frétt NOAA 6. maí).

Rusl á fjörum kostar íbúa stórfé

strendurÍbúar Orange County í Kaliforníu eyða tugum milljóna dollara árlega í að komast hjá því að eyða sumrinu á ströndum þar sem mikið er um rusl, að því er fram kemur í nýrri rannsókn bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Útgjöldin felast í ferðakostnaði fólks sem fer um langan veg í leit að hreinni ströndum, enda virðist hreinleikinn skipta fólk mestu máli við val á strandsvæðum til útivistar. Ef takast má að minnka úrgangsmagn á ströndum sýslunnar um 25% gæti samanlagður sparnaður íbúa numið allt að 32 milljónum Bandaríkjadala á hverju sumri (um 3,7 milljörðum ísl. kr). Með því að koma í veg fyrir að úrgangur endi í hafinu er því dregið úr kostnaði íbúa á sama tíma og vistkerfi hafs og stranda eru vernduð.
(Sjá frétt ENN 12. ágúst).