Líftími raftækja styttist með hverju árinu sem líður samkvæmt nýrri rannsókn frá Umhverfisstofnun Þýskalands. Bilanatíðni hefur aukist á sama tíma og tískustraumar og nýjar útgáfur stýra markaðnum og raftækjum er í auknum mæli skipt út þó að þau séu nýleg og vel nothæf. Þetta hefur í för með sér aukið álag á auðlindir heimsins og eykur umhverfisáhrif raftækjanna. Hlutfall stórra raftækja sem bila fyrstu 5 árin hækkaði úr 3,5% í 8,3% á árunum 2004-2013. Þrátt fyrir þetta eru neytendur ánægðir með endingu raftækja. Forstjóri Umhverfisstofnunar Þýskalands kallar eftir lögbundnum lágmarkskröfum um líftíma raftækja, merkingum sem sýna líftíma vörunnar og að lögð sé áhersla á að auðvelt sé að gera við vöruna og skipta út hlutum.
(Sjá frétt EurActiv 16. febrúar).