Vísindamenn við háskólann í Jilin í Kína hafa fundið aðferð sem gerir það mögulegt að prenta margoft á sömu pappírsörkina. Þá er notaður sérstakur pappír með litarefni sem kemur í ljós þegar pappírinn blotnar en hverfur þegar pappírinn þornar aftur. Hægt er að prenta á slíkan pappír í venjulegum bleksprautuprentara sem notar hreint vatn í staðinn fyrir blek. Litarefnið í pappírnum dofnar með tímanum, en þolir þó í öllu falli nokkra tugi umferða í gegnum prentarann. Vísindamennirnir telja að með þessu móti megi lækka prentkostnað um 99% miðað við að hver örk sé notuð 50 sinnum. Letur sem prentað er með þessu móti hverfur á tæpum sólarhring við stofuhita, en fyrr ef pappírinn er hitaður.
(Sjá frétt í Teknisk ukeblad 5. febrúar).