Mikið ósýnilegt vatn í hversdagsvörum

coffee_tea_160Um fimmfalt meira vatn þarf til að framleiða einn bolla af kaffi en einn bolla af tei samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna Friends of the Earth þar sem sjá má útreikninga á vatns- og landnotkun ýmissa vörutegunda til daglegra nota. Þar kemur fram að um 136 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn kaffibolla. Mest af þessu vatni fer í ræktunina og í að fjarlægja hlaupkennt lag utan af baununum. Þá kemur fram að að meðaltali þurfi 13 tonn af vatni og 18 fermetra af landi til að framleiða einn snjallsíma. Samtökin skora á fyrirtæki að stunda ábyrga framleiðslu með því að fylgjast með og draga úr auðlindanotkun og upplýsa neytendur um vistspor framleiðslunnar. Um leið dragi fyrirtækin úr framleiðslukostnaði og auki arðsemi sína.
(Sjá frétt EDIE 12. maí).

Bruðlað með „ósýnilegt vatn“

watershortage_160Brýnt er að draga úr „ósýnilegri vatnsneyslu“ við matvælaframleiðslu að mati Heimssamtaka efnaverkfræðinga (IChemE), en með „ósýnilegri vatnsneyslu“ er átt við það vatn sem notað er í framleiðsluferlinu. Samtökin áætla að hver einstaklingur neyti um 1,8 milljónar lítra af ósýnilegu vatni árlega eða um 2.000-5.000 lítra á dag. Horfur eru á að vatnsnotkun muni aukast um meira en 50% fram til ársins 2050 vegna fólksfjölgunar og aukinnar áherslu á vestrænt neyslumynstur, en um 70% af öllu ferskvatni eru nú þegar nýtt í landbúnaði. Með hliðsjón af þessu hafa samtökin lagt til að stefnt verði að 20% samdrætti til ársins 2050 til að auka fæðuöryggi og minnka álag á vatnslindir heimsins.
(Sjá frétt ENN 5. janúar).