Efni sem meðal annars finnast í sólarvörn og tannkremi hafa áhrif á gæði sæðis og eiga þátt í minnkandi frjósemi karla samkvæmt nýrri rannsókn vaxtar- og æxlunardeildar danska ríkisspítalans og þýsku rannsóknarstofnunarinnar Caesar. Um er að ræða tríklósan og fleiri manngerð efni sem er m.a. að finna í matvælum, snyrtivörum og heimilisvörum. Skoðuð voru 96 efni sem öll eru talin hafa hormónaraskandi áhrif og reyndist þriðjungur þeirra hafði áhrif á starfsemi og virkni sæðisfruma, sérstaklega á fósturskeiði og í bernsku á meðan kynfæri eru enn að þróast. Á síðustu árum virðist hafa dregið úr frjósemi án þekktra líffræðilegra skýringa og eru hormónaraskandi efni vera ein af ástæðum þessa. Hægt er að forðast slíkum efni að miklu leyti með því að velja umhverfismerktar vörur.
(Sjá frétt Politiken 11. maí).
Greinasafn fyrir merki: Þýskaland
Fosfór unninn úr skólpi
Þýskir vísindamenn hafa kynnt nýja aðferð til að vinna fosfór úr skólpi. Segulmagnaðar agnir sem geta auðveldlega tengst fosfórfrumeindum eru settar í skólpið og þegar agnirnar hafa bundast fosfórnum er segull notaður til að fjarlægja þær. Fosfór er til staðar í tilbúnum áburði og hefur afrennsli hans neikvæð áhrif á umhverfið, meðal annars í formi ofauðgunar. Á sama tíma fara nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins ört minnkandi, en fosfór er ein af undirstöðum nútímalandbúnaðar, auk þess sem efnið er notað í fjölmargar vörutegundir. Með því að vinna fosfór úr skólpi er því dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum um leið og þetta verðmæta efni er endurnýtt.
(Sjá frétt Science Daily 24. mars).
Umhverfismerktir hvarfakútar
Þýsku fyrirtækin HJS Emission Technology og LRT Automotive fengu á dögunum leyfi til að merkja hvarfakúta sem fyrirtækin framleiða með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum. Umræddir kútar eru varahlutir sem gripið er til ef skipta þarf um hvarfakúta í bílum. Kútarnir eru seldir með 5 ára ábyrgð og til að fá Bláa engilinn þurfa þeir að standast strangar kröfur um hreinsun útblásturs allan þann tíma. Virkni kútanna skal prófuð sérstaklega einu sinni á ári til að staðfesta afköst þeirra og endingu. Umræddir kútar eru fyrstu umhverfismerktu hvarfakútarnir á markaðnum.
(Sjá fréttatilkynningu Bláa engilsins 10. febrúar).
Ný ríkisstjórn í Þýskalandi boðar hertar reglur um merkingar erfðabreyttra matæla
Ný ríkisstjórn kristilegra demókrata og jafnaðarmanna í Þýskalandi, sem tekur væntanlega formlega við völdum í desember, hyggst beita sér innan Evrópusambandsins fyrir hertum reglum um merkingu erfðabreyttra matvæla. Samkvæmt drögum að stjórnarsáttmála vill ríkisstjórnin að skylt verði að merkja sérstaklega afurðir dýra sem alin hafa verið á erfðabreyttu fóðri. Ef af verður mun hátt hlutfall kjöts sem framleitt er innan sambandsins verða merkt með þessum hætti, þar sem mikið er af erfðabreyttu soja af bandarískum uppruna í fóðri evrópskra húsdýra.
(Sjá frétt PlanetArk 26. nóvember).
Hættuleg efni í leikföngum
Rúmur helmingur af 30 tegundum tréleikfanga fyrir börn að þriggja ára aldri sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Stiftung Warentest reyndust innihalda hættuleg efni. Um var að ræða efni á borð við PAH, lífræn tinsambönd, blý, hættuleg litarefni og formaldehýð, þ.e.a.s. efni sem geta verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi svo eitthvað sé nefnt. Efnin fundust einkum í lakki, snúrum, netum og krossviði.
(Sjá frétt á heimasíðu Stiftung Warentest 21. nóvember).
Þjóðverjar koma í veg fyrir samkomulag um minnkandi útblástur frá bílum
Umhverfisráðherrar ríkja ESB létu í gær undan þrýstingi þýskra stjórnvalda og lögðu til hliðar fyrirliggjandi samkomulag um að meðalkoltvísýringslosun bíla sem framleiddir verða í álfunni eftir 2020 skuli vera að hámarki 95 g/km (sem samsvarar um 4,1 lítra bensíneyðslu á 100 km). Rök Þjóðverja voru þau að slík takmörkun myndi koma hart niður á þýskum bílaframleiðendum. Connie Hedegaard loftslagsstjóri ESB hefur lýst vonbrigðum sínum með þessa niðurstöðu, enda hefði verið unnið að samkomulaginu í 5 ár. Lena Ek umhverfisráðherra Svíþjóðar tekur í sama streng og segir ábyrgð Þjóðverja mikla. Umhverfisverndarsinnar eru einnig mjög ósáttir og benda á að 95 gramma markmiðið hefði sparað Evrópuþjóðum eldsneyti upp á um 70 milljarða evra (um 11.500 milljarða ísl. kr.) árlega, þar af 9 milljarða (1.500 milljarða ísl. kr.) fyrir Þjóðverja sjálfa. Þetta sé óásættanlegur kostnaður sem leggist á evrópska bíleigendur og á jörðina sem hlýni hraðar en ella, auk þess sem þetta kunni að skaða samkeppnishæfni bílaiðnaðarins í Evrópu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Daimler fjárfestir í vetnisstöðvum
Þýski bílaframleiðandinn Daimler ætlar á næstu 10 árum að byggja áfyllingarstöðvar fyrir vetnisbíla fyrir um 350 milljónir evra (um 57 milljarða ísl. kr.) í samvinnu við fimm olíu- og gasfélög. Markmiðið er að á árinu 2023 verði vetnisstöðvar við þýskar hraðbrautir orðnar fleiri en hefðbundnar bensínstöðvar. Nú eru 15 vetnisstöðvar í Þýskalandi, á næstu 4 árum eiga þær að vera orðnar 100 talsins og 400 innan 10 ára. Vegalengd á milli stöðva ætti þá ekki að vera meiri en 90 km.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símarnir
Þýska símafyrirtækið Telekom Deutschland er þessa dagana að setja á markað fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símana. Símtækin eru vottuð með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum, en vottunin er m.a. staðfesting á því að tækin noti lítið rafmagn, að auðvelt sé að skipta um rafhlöður og auka þar með endinguna, að tækin innihaldi ekki skaðleg efni, að rafsegulsvið sé í lágmarki og að notandi geti sjálfur stillt sendistyrkinn, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Bláa engilsins 1. mars).