Varasöm efni í flestum andlitskremum

ansigtscreme-testEngin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Varasöm efni algeng í rakvélablöðum

skrabere-test-web1Ellefu af 27 tegundum rakvélablaða sem teknar voru fyrir í nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda rotvarnarefnið BHT sem talið er geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Rakvélablöðin sem skoðuð voru áttu það öll sameiginlegt að vera með sérstaka innbyggða smurrák (d. lubrastrip) sem ætlað er að mýkja húðina við rakstur. Efnið sem um ræðir er notað til að koma í veg fyrir að smurrákin oxist. BHT fannst í rakvélablöðum frá BIC og Gillette, en ekki í blöðum frá öðrum framleiðendum. Ólíklegt er að hormónaraskandi efni í vörum af þessu tagi hafi mikil skaðleg áhrif ein og sér, þar sem varan liggur ekki eins lengi á húðinni eins og t.d. húðkrem. Hins vegar getur þetta efni átt þátt í hormónaraskandi kokteiláhrifum þegar saman koma fleiri svipuð efni úr öðrum neytendavörum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Varasöm efni í varasalva

laebepomade_0Tuttuguogfimm af 89 tegundum varasalva sem dönsku neytendasamtökin Tænk prófuðu nýlega fengu falleinkunn vegna innihaldsefna sem eru ofnæmisvaldar eða eru talin geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Aðeins 17 tegundir voru laus við varasöm efni og fengu þar af leiðandi ágætiseinkunn á prófinu. Tænk bendir á að varasalvi sem inniheldur hormónaraskandi efni sé ekki endilega skaðlegur heilsunni einn og sér en efni úr varasalva geti auðveldlega borist inn í líkamann og bæst þar við efnakokteil af öðrum uppruna. Samtökin mæla með því að fók noti Svansmerktan varasalva. Slíkur varasalvi er laus við hormónaraskandi efni, þó að hann kunni að innihalda einhver ilmefni sem stuðlað geta að ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 25. október).

Hættuleg efni í pizzukössum

pizzabakke-test-artikel-web (160x77)Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).

Fjórði hver svitalyktareyðir fær falleinkunn

deoartikelAf 115 tegundum svitavarnar og svitalyktareyðis sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku fyrir í úttekt sinni á dögunum fengu 33 falleinkun vegna ofnæmisvalda og efna sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Fimmta hvert efni fékk hins vegar ágætiseinkunn. Bakteríudrepandi efnið tríklósan var til staðar í 7 vörutegundum en efnið er talið vera hormónaraskandi auk þess sem það safnast fyrir í náttúrunni. Þá fundust ýmis ilmefni sem geta valdið ofnæmi, þ.á.m. efnið bútýlfenýlmetýlpróíónal, sem auk ofnæmisáhrifa er talið geta stuðlað að skertri frjósemi. Þetta efni fannst í 25 tegundum. Framleiðendur hafa gagnrýnt úttekt Tænk og bent á að styrkur efnanna hafi ekki verið skoðaður heldur eingöngu athugað hvort efnin væru til staðar. Efnanotkun lúti ströngum reglum og því sé ekki ástæða til að óttast. Forsvarsmenn Tænk benda hins vegar á að samverkandi áhrif efna (kokteiláhrif) séu vanmetin í gildandi reglum. Auk þess eigi ilmefni ekkert erindi í vörur af þessu tagi þar sem þau hafi ekkert með virkni vörunnar að gera.
(Lesið frétt á heimasíðu Tænk 6. október).

 

 

 

Varasöm efni algeng í hárvaxi

haarvoks-test-web-1Efni sem talin eru vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi eða ofnæmisvaldandi fundust í næstum því annarri hvorri tegund af hárvaxi sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum. Skoðunin fór þannig fram að lesnar voru innihaldslýsingar á 48 mismunandi tegundum af hárvaxi og kannað hvort þar væru tilgreind efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Af þessum 48 tegundum fengu 23 rauða spjaldið, þar sem þær reyndust innihalda hugsanlega hormónaherma, krabbameinsvalda og ofnæmisvalda. Fjórtán tegundir til viðbótar fengu gula spjaldið þar sem þær innihéldu ilmefni sem geta valdið ofnæmi eða efni sem geta skaðað umhverfið. Aðeins 11 tegundir fengu ágætiseinkunn í þessari yfirferð. Þrátt fyrir hugsanlega skaðsemi er enn sem komið er heimilt að nota öll umrædd efni í snyrtivörur, að einu frátöldu.
(Lesið frétt á heimasíðu Tænk 14. september).

Ofnæmisvaldandi efni algeng í handsápum

haandsaebe-testÞekktir ofnæmisvaldar eða hormónaraskandi efni fundust í þriðju hverri handsáputegund sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu nýlega. Farið var yfir innihaldslýsingar í 76 mismunandi tegundum af handsápu og reyndust 25 þeirra innihalda efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Nokkrar tegundir innihéldu m.a. bakteríudrepandi efnið tríklósan sem er talið geta truflað hormónastarfsemi líkamans auk þess sem það stuðlar að vexti lyfjaónæmra baktería. Tríklósan getur safnast upp í fæðukeðjunni og er skaðlegt vatnalífverum. Nítján tegundir innihéldu rotvarnarefnin MCI og MI (metýlklóróísóthiazólínon og metýlísóthiazólínon) sem eru ein algengasta orsök ofnæmis af völdum rotvarnarefna. Leyfilegur hámarksstyrkur þessara efna var 25-faldaður árið 2005 og síðan hefur ofnæmistilfellum vegna þeirra fjölgað gríðarlega. Um 1.000 tilfelli greinast nú í Danmörku árlega.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 21. ágúst).

Skaðleg efni í hreinsiklútum

Attractive woman cleaning her face with a tissueSkaðleg efni fundust í 23 af 30 hreinsiklútum sem dönsku neytendasamtökin Tænk rannsökuðu á dögunum. Athugað var hvort klútarnir innihéldu ofnæmisvaldandi efni, hormónaraskandi efni og ilmefni og í ljós kom að aðeins þriðjungur klútanna var laus við slíkt. Nivea kom einna verst út úr könnuninni, en tvær verstu vörurnar að þessu leyti komu báðar þaðan. Einnig kom í ljós að hátt verð tryggir ekki að varan sé laus við skaðleg efni þar sem ódýrustu klútarnir voru í hópi þeirra bestu. Hreinsiklútar eru einkum notaðir til að fjarlægja farða af andliti og efnin geta því setið alllengi á húðinni. Neytendasamtökin telja þetta sérstaklega slæmt þegar ofnæmisvaldandi efni eiga hlut. Besta leiðin til að forðast hættuleg efni í hreinsiklútum er að velja vörur sem vottaðar eru með Norræna svaninum eða Bláa kransinum sem er merki astma- og ofnæmissamtaka Danmerkur.
(Sjá frétt Søndagsavisen 5. mars).

Óleyfileg efni í tímaritum fyrir börn

spiderman_maske800Í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk fundust óæskileg efni í 5 af 18 leikföngum sem fylgdu með tímaritum fyrir börn. Í framhaldi af þessu hafa þrjú tímaritanna verið kærð til yfirvalda fyrir ólöglega efnanotkun. Með umræddum tímaritum fylgdu leikföng á borð við bolta, dúkkur, prumpublöðrur og strokleður og fundust meðal annars þalöt og blý í þessum vörum. Samkvæmt dönskum lögum mega leikföng ekki innihalda meira en 0,1% af þalatinu DEHP sem er hormónaraskandi efni. Tvö leikföng voru yfir mörkum hvað þetta varðar. Þannig innihélt plastútvarp sem fylgdi með tímaritinu Prinzessin Lillifee 15% DEHP, auk þess sem styrkur blýs í leikfanginu var 2.560 mg/kg. Umhverfisstofnun Danmerkur ætlar ekki að verða við beiðni Tænk um að beita sér fyrir því að strokleður sem fylgdi með tímaritinu Wendy verði tekið af markaði þar sem strokleður séu ekki skilgreind sem leikföng í dönskum lögum. Tænk bendir hins vegar á að reglur um leikföng hljóti að eiga að gilda um strokleður sem séu beinlínis markaðsett fyrir börn.
(Sjá frétt Tænk 13. nóvember).

Krabbameinsvaldandi efni í blöðrum

balloonsKrabbameinsvaldandi efni fundust í meira en helmingi af blöðrum sem danska umhverfisráðuneytið rannsakaði nýlega. Alls reyndust 22 blöðrutegundir af 39 innihalda efni sem geta hvarfast í nítrósamín sem er þekktur krabbameinsvaldur. Nokkrar tegundir innihéldu um þrefalt meria af slíkum efnum en leyfilegt er. Umhverfisráðherra Danmörku hefur í kjölfar rannsóknarinnar látið auka eftirlit með innfluttum leikföngum þar sem áhersla verður lögð á stikkprufur úr leikfangagámum frá löndum utan Evrópusambandsins.
(Sjá frétt á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna Tænk í dag).