Þekktir ofnæmisvaldar eða hormónaraskandi efni fundust í þriðju hverri handsáputegund sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu nýlega. Farið var yfir innihaldslýsingar í 76 mismunandi tegundum af handsápu og reyndust 25 þeirra innihalda efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Nokkrar tegundir innihéldu m.a. bakteríudrepandi efnið tríklósan sem er talið geta truflað hormónastarfsemi líkamans auk þess sem það stuðlar að vexti lyfjaónæmra baktería. Tríklósan getur safnast upp í fæðukeðjunni og er skaðlegt vatnalífverum. Nítján tegundir innihéldu rotvarnarefnin MCI og MI (metýlklóróísóthiazólínon og metýlísóthiazólínon) sem eru ein algengasta orsök ofnæmis af völdum rotvarnarefna. Leyfilegur hámarksstyrkur þessara efna var 25-faldaður árið 2005 og síðan hefur ofnæmistilfellum vegna þeirra fjölgað gríðarlega. Um 1.000 tilfelli greinast nú í Danmörku árlega.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 21. ágúst).