Kínversk stjórnvöld kynntu í síðustu viku löggjöf sem gefur frjálsum félagasamtökum, hópum náttúruverndarsinna og öðrum hópum hagsmunaaðila aukin réttindi til að lögsækja mengunarvalda. Hópar sem standa í málaferlum sem miða að því að draga úr mengun í Kína munu m.a. fá afslátt af málskostnaði, auk þess sem félagasamtök fá aukið svigrúm til að höfða mál gegn fyrirtækjum án tillits til þess hvar fyrirtækin eru skráð. Nýlegar rannsóknir benda til að í dag séu um 2/3 af jarðvegi í Kína mengaðir, svo og um 60% af öllu grunnvatni. Þá er Kína með hæstu losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Stjórnvöld lýstu á síðasta ári yfir stríði gegn mengun og er aðgerðin liður í þeirri baráttu.
(Sjá frétt the Guardian 7. janúar).
Greinasafn fyrir merki: loftmengun
Gríðarleg loftmengun í Mekka
Mikil loftmengun mælist í Mekka dagana sem Hajj stendur yfir, en árlega flykkjast þá milljónir múslima í pílagrímsferð til borgarinnar. Hópur vísindamanna sem mælt hefur loftmengun í 75 borgum víðsvegar um heiminn segir að loftmengunin í Mekka sé engu lík á þessum tíma, enda komi þá 3-4 milljónir manna til þéttbýllar borgar þar sem loftgæði eru slæm fyrir. Verst verður ástandið í göngum sem liggja að Masjid al-Haram, sem er stærsta moska í heimi, en þar hefur styrkur kolmónoxíðs t.d. mælst allt að 57.000 ppb (57 milljónustupartar) sem er um 300 sinnum hærra en eðlilegur styrkur efnisins í Sádi-Arabíu. Kolmónoxíð eykur líkur á hjartaáfalli auk þess sem það getur valdið höfuðverk, svima og ógleði. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að árið 2012 hafi um 4,3 milljónir manna látið lífið vegna innanhúsloftmengunar og um 3,7 milljónir vegna loftmengunar utandyra. Um eitt af hverjum átta dauðsföllum í heiminum má rekja til loftmengunar.
(Sjá frétt Science Daily 15. desember).
Loftslagsaðgerðir borga sig í lægri heilbrigðiskostnaði
Kostnaður við að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda getur skilað sér í sparnaði í heilbrigðiskerfinu ef marka má nýja rannsókn frá Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT). Lægri tíðni astma og annarra kvilla sem tengjast loftmengun eru meðal algengra jákvæðra aukaverkana af aðgerðum sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem slíkar aðgerðir leiða gjarnan jafnframt til samdráttar í losun annarra efna og bæta þannig loftgæði. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að sparnaður í heilbrigðiskerfinu vegna lægri sjúkrakostnaður og fleiri þátta sem tengjast betri loftgæðum geti numið allt að tíföldum kostnaði stjórnvalda vegna loftslagsaðgerða. Rannsóknin gefur einnig til kynna að aðgerðir sem beinast að losun gróðurhúsalofttegunda geti bætt loftgæði jafn mikið eða meira en aðgerðir sem beinast sérstaklega að bættum loftgæðum, enda hafi aukin áhersla á minni notkun jarðefnaeldsneytis sjálfkrafa í för með sér minni losun svifryks og lækkaðan styrk yfirborðsósons og fleiri heilsuskaðlegra efna.
(Sjá frétt Science Daily 24. ágúst).
Loftmengun tengd við geðklofa og einhverfu
Loftmengun kann að stuðla að geðklofa og einhverfu að því er fram kemur í rannsókn heilbrigðisdeildar Háskólans í Rochester í Bandaríkjunum. Mýs sem lifðu í menguðu lofti snemma á ævinni urðu fyrir skaðlegum breytingum í heila, þ.m.t. stækkun þess hluta heilans sem tengist einhverfu og geðklofa í mönnum. Mýsnar komu jafnframt illa út í mælingum á skammtímaminni, námsgetu og hvatvísi. Höfundar rannsóknarinnar segja niðurstöðurnar benda til að loftmengun geti ýtt undir einhverfu og önnur taugaþroskunarfræðileg frávik þar sem hún komi í veg fyrir eðlilega þroskun heilans. Niðurstöðurnar styðja fyrri vísbendingar um tengsl loftmengunar á fyrstu árum barna og einhverfu.
(Sjá frétt Science Daily 5. júní).
Köfnunarefnismengun vaxandi vandamál
Köfnunarefnissambönd eiga stóran þátt í mengun vatns og lofts og stuðla þannig að aukinni tíðni sjúkdóma á borð við astma og krabbamein. Þetta kom fram í rannsókn Potsdam stofnunarinnar sem sagt er frá í maíhefti Nature Communications. Um helmingur þess köfnunarefnis sem notað er í tilbúinn áburð skilar sér ekki í jarðveginn, en berst þess í stað út í umhverfið með vindi og vatni. Notkun köfnunarefnisáburðar er talin nauðsynleg í fæðuframleiðslu en köfnunarefnissambönd geta valdið auknu svifryki, leitt til ósonmengunar við yfirborð jarðar og komið ójafnvægi á vistkerfi vatna. Talið er að tjón vegna köfnunarefnismengunar í Evrópu nemi um 1-4% af þjóðarframleiðslu. Gera má ráð fyrir að mengun af völdum köfnunarefnis aukist um 20% fram til ársins 2050 ef ekkert er að gert, en með réttum viðbrögðum væri hægt að minnka hana um helming. Til þess þurfa bændur að byggja áburðarskammta á jarðvegsmælingum og nýta búfjáráburð í auknum mæli. Þá þurfa neytendur að draga úr kjötneyslu og sóun matvæla.
(Sjá frétt Science Daily 13. maí).
Minni mengun frá flugeldum
Hægt er að draga verulega úr mengun frá flugeldum með því að nota nanótækni við framleiðslu þeirra. Með því móti er hægt að framkalla jafnmikinn ljósagang og hávaða þótt magn efna sé minnkað um þrjá fjórðu frá því sem nú tíðkast. Áður en slíkir flugeldar verða settir á markað þarf þó að huga nánar að þeirri áhættu sem kann að fylgja notkun nanóagna í þessum iðnaði, sem ekki er þekktur fyrir að setja öryggismál á oddinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðasamtaka efnaverkfræðinga IChemE í gær).
Gervinef þefar uppi mengun frá skipum
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur fengið Tæknistofnunina í Århus til að þróa gervinef sem komið verður fyrir á Stórabeltisbrúnni á næsta ári. Frá og með 1. janúar 2015 mun „nefið“ þefa uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Þann dag ganga einmitt í gildi nýjar reglur Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) um hámarksstyrk brennisteins í útblæstri skipa nálægt landi. Verði „nefið“ vart við mengun yfir mörkum verður farið um borð í viðkomandi skip, tekið sýni af eldsneyti og sektum beitt ef sýnið stenst ekki kröfur IMO.
(Sjá umfjöllun í fréttabréfinu Miljønyt 14. mars).
Brýnt að innlima heilsufarskostnað vegna flutninga í verð vöru
Áætlað er að árlega megi rekja 350.000 ótímabær dauðsföll og 3 milljónir veikindadaga í Evrópu til loftmengunar. Þessu fylgir gríðarlegur kostnaður. Mengun frá flutningabílum á stóran hlut að máli, en áætlað er að þessi eina uppspretta mengunar kosti heilbrigðiskerfi ríkjanna á Evrópska efnhagssvæðinu samtals um 45 milljarða evra á ári (um 7.300 milljarða ísl. kr). Umhverfisstofnun Evrópu telur brýnt að innlima þennan kostnað í vöruverð og hvetja þannig um leið til heilsusamlegri flutninga og hreinni tækni. Heilsufarskostnaður vegna landflutninga er mjög mishár eftir löndum, eða allt frá hálfu evrusenti (0,80 ísl kr.) upp í 12 sent (20 ísl. kr.) á kílómetra miðað við 12-14 tonna Euroclass III flutningabíl. Kostnaðurinn ræðst einkum af þéttleika byggðar og landfræðilegum aðstæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu 28. febrúar).
Sífellt fleiri deyja vegna loftmengunar
Um 3,2 milljónir manna dóu vegna loftmengunar á árinu 2010 að því er fram kemur í grein í læknatímaritinu Lancet, en árið 2000 var þessi tala aðeins 800 þúsund. Loftmengun er nú í fyrsta sinn orðin ein af 10 algengustu dánarorsökunum í heiminum. Þessi mikla fjölgun stafar öðru fremur af gríðarlegri aukningu bílaumferðar í fjölmennum borgum í Asíu. Heilsufarsáhrif af mengun samtímans eiga þó væntanlega eftir að koma fram af enn meiri þunga, svo sem vegna krabbameina sem gera ekki vart við sig fyrr en að allnokkrum árum liðnum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).