Skólaeldhús notar 100% lífrænt vottað

personal-byskolan_160Skólaeldhús Byskolans í Södra Sandby í Svíþjóð notar nú eingöngu lífrænt vottaða matvöru, en kostnaður við hverja máltíð hefur þó ekki hækkað frá því sem áður var. Á sama tíma hafa gæði máltíða aukist og matarsóun minnkað. Að sögn kokkanna í eldhúsinu réðu nokkur undirstöðuatriði úrslitum um að svo vel tókst til, þ.á.m. að hætt var að kaupa aðsendan mat frá stóreldhúsum. Í framhaldi af því var lögð mikil vinna í að finna framleiðendur og birgja sem seldu lífrænt vottaða vöru. Þá hefur sveigjanleiki skipt miklu máli, þ.e. að láta framboð á lífrænum vörum á hverjum tíma stýra matseðlinum. Einnig þarf eldhúsið að sjá um hluta framleiðslunnar, svo sem að búa til lífrænar pylsur þar sem slík vara fæst ekki á markaðnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV 16. janúar).

Lífræn vottun í Danmörku í 25 ár

okologisk_160Danska Ø-merkið fyrir lífræna vottun fagnar nú 25 ára afmæli. Merkið hefur átt stóran þátt í að gera Dani að þeirri þjóð sem kaupir mest lífrænt, en um 8% af öllum matarinnkaupum í Danmörku eru nú lífrænt vottuð. Síðan vottunin var sett á laggirnar hefur danska þjóðin komið í veg fyrir að rúmlega þrjár milljónir tonna af eiturefnum sleppi út í náttúruna og á sama tíma verndað um 4.300 milljarða lítra af grunnvatni fyrir mengun af völdum varnarefna með því einu að kaupa lífrænt vottaðar vörur. Aðstandendur vottunarinnar telja að velgengni Ø-merkisins megi rekja til þess trausts sem merkingin hefur unnið sér á dönskum markaði. Um 98% danskra neytenda þekkja til merkisins og um 80% treysta því fullkomlega. Nú kaupa um 45% danskra neytenda lífrænt vottaðar vörur vikulega og um 70% mánaðarlega. Danir áætla að sala á lífrænt vottuðum vörum muni tvöfaldast á næstu 25 árum.
(Sjá frétt Økologisk Landsforening í dag).

Framleiðsla á lífrænu plasti fjórfaldast!

bioplasticÁætlað er að heimsframleiðsla á lífrænum plastefnum muni fjórfaldast á næstu fjórum árum eða úr 1,6 milljónum tonna í 6,7 milljón tonn, að því er fram kemur í ársskýrslu European Bioplastics. Aukningin verður væntanlega einkum í Asíu, þar sem Tæland, Indland og Kína munu standa fyrir um 75% af heimsframleiðslunni. Lífræn plastefni eru framleidd úr endurnýjanlegum auðlindum á borð við maíssterkju og sykurreyr og geta m.a komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum. Þannig mun áhersla ESB á að draga úr plastpokanotkun stuðla mjög að stækkun markaðsins. Einnig hafa miklar tækniframfarir ýtt undir aukna framleiðslu á lífrænu plasti. Lífrænt pólýetýlenplast er lang stærsti hluti heimsframleiðslunnar, enda leggja fyrirtæki á borð við Coca-Cola síaukna áherslu á „grænar“ umbúðir.
(Sjá frétt EDIE 4. desember).

Er rúsínan í pylsuendanum full af varnarefnum?

russin_lidl_paket_184pxLeifar af 15 mismunandi varnarefnum fundust í einni og sömu rúsínutegundinni sem tekin var með í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd & Rön á eiturefnum í rúsínum sem seldar eru í sænskum matvöruverslunum. Af þessum 15 efnum er tvö bönnuð í löndum ESB. Um var að ræða rúsínur frá fyrirtækinu Montedos sem eru markaðsettar sérstaklega fyrir börn. Varnarefnaleifar í snefilmagni eru ekki taldar hafa mikil eituráhrif, en hins vegar er ekkert vitað um samverkandi áhrif efnanna, þ.e.a.s. svonefnd kokkteiláhrif. Áhrif efna ráðast eðlilega af neyslumagni, auk þess sem börn eru viðkvæmari fyrir eiturefnum en fullorðnir þar sem þau fá í sig meira magn á hverja þyngdareiningu. Í rannsókninni kom í ljós að lífrænt vottaðar rúsínur innihéldu engar varnarefnaleifar, en 7 af 14 sýnum í rannsókninni voru með lífræna vottun. Allar hinar rúsínurnar innihéldu einhverjar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt Råd&Rön 25. nóvember).

Lífrænn matur jafn ódýr og tilbúinn

ekologiskt_vidjoÁ dvalarheimilinu Bryggergården í Kaupmannahöfn er heldri borgurum boðið upp á lífrænan mat í mötuneytinu, en yfirmaður eldhússins segir matinn vera á svipuðu verði og tilbúinn mat. Gæðin eru hins vegar talsvert meiri. Áður var aðallega notast við tilbúinn frosinn mat og dósamat í eldhúsinu, en nú eru 90-100% af matvörunni lífræn og mun meira af heimatilbúnum mat. Reynslan hefur sýnt að heilsa vistmanna hefur batnað, maturinn er bragðbetri og lífsgæði meiri. Fyrir breytinguna var meirihluti vistmanna undir kjörþyngd en fjórum árum síðar voru aðeins tveir einstaklingar of léttir. Dregið hefur úr kostnaði þar sem matvælin eru að miklu leyti unnin í eldhúsinu í stað þess að keypt sé unnin vara. Einnig hefur kostnaður minnkað vegna aukinnar áherslu á að koma í veg fyrir matarsóun, nota árstíðarbundin matvæli og minnka kjötneyslu.
(Sjá frétt Økologisk landsforening 16. október).

Stúdentar í Århus fá lífrænan mat

ÖmerkiðStúdentar við Háskólann í Århus fá nú í síauknum mæli lífrænan mat í matstofum háskólans, en rekstaraðili matstofanna hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði 90% af öllum matvælum háskólans lífrænt vottuð. Þessi þróun á ekki að leiða til hækkaðs verðlags, en hins vegar mun framboð og meðferð matvæla taka breytingum. Þannig mun maturinn í auknum mæli verða árstíðabundinn og stærri hluti hans framleiddur á staðnum. Áform háskólans ganga nokkru lengra en markmið dönsku ríkisstjórnarinnar, en þar á bæ er stefnt að því að 60% af öllum mat í eldhúsum hins opinbera verði lífræn árið 2020.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 25. febrúar).

Verðandi mæður velji lífrænt

Gravid ØkoFleiri efni en áður var talið geta truflað þroskun heila í börnum í móðurkviði. Þetta kemur fram í grein Dr. Philippe Grandjean og samstarfsmanna hans sem birtast mun í læknatímaritinu Lancet í næsta mánuði. Börn sem fá þessi efni í sig á fósturskeiði eða með móðurmjólk eru líklegri en önnur til að greinast með einhverfu, lesblindu, ADHD og aðrar þroskaraskanir, en efnin sem um ræðir geta m.a. leynst í matvælum, snyrtivörum, leikföngum og klæðnaði. Dr. Philippe kallar eftir alþjóðlegum aðgerðum til að tryggja að börn verði ekki fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum efna af þessu tagi og ráðleggur jafnframt verðandi mæðrum að velja lífræn matvæli til að forðast varnarefnaleifar í matvælum.
(Sjá frétt Danska ríkisútvarpsins 15. febrúar).

Leikskólar með næstum 100% lífrænt fæði

moss_barnehage_1Tveir leikskólar í Moss í Noregi fengu í byrjun þessa árs staðfestingu vottunarstofunnar Debio á því að yfir 90% af öllum mat sem börnin fá í leikskólunum sé lífrænt vottaður. Um er að ræða einkarekna leikskóla, þar sem ákvörðun var tekin fyrir ári síðan um að börnin skyldi eingöngu fá lífrænt vottað fæði. Um leið er börnunum kennt um uppruna fæðunnar, því að allur matur er keyptur inn sem hráefni og unninn á staðnum með virkri þátttöku barnanna. Meðal annars fara börnin í heimsókn á sveitabæi og gera síðan sína eigin osta og baka sín eigin brauð, auk þess sem leikskólarnir hafa sína eigin matjurtagarða. Þá hefur verið haldið sérstakt „lífrænt bakstursnámskeið“ fyrir starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnendur leikskólanna vonast til að fleiri leikskólar fylgi í kjölfarið og breyti verklagi við innkaup og matargerð.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio 29. janúar).

Metsala á lífrænum matvælum í Svíþjóð

KRAVÍ Svíþjóð jókst sala á lífrænt vottuðum matvælum um 13% milli áranna 2012 og 2013. Þetta er mesta aukning sem sést hefur í nokkur ár og langt umfram spár sem gerðu ráð fyrir 5% aukningu. Lífræn matvæli seldust fyrir samtals 11,6 milljarða sænskra króna (um 206 milljarða ísl. kr.), sem samsvarar um 4,3% markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Árið áður var þetta hlutfall 3,8%.
(Sjá fréttatilkynningu KRAV í dag)

Danir selja lífræna mjólk til Kína

ÖkokýrÍ næsta mánuði siglir fyrsta tankskipið með geymsluþolna lífrænt vottaða mjólk frá Danmörku til Kína. Mjólkurvöruframleiðandinn Thise stendur fyrir þessum útflutningi, en fyrirtækið fékk nýlega sína fyrstu pöntun úr þessari átt. Mikil eftirspurn er eftir lífrænum matvörum í Kína, sem m.a má rekja til endurtekinna hneykslismála í þarlendum matvælaiðnaði. Lífrænir framleiðendur í Danmörku hafa þegar haslað sér völl í Kína og sem dæmi má nefna að mjólkurvöruframleiðandinn Arla selur nú lífrænt vottaðar vörur í 8.000 verslunum í Shanghai.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 23. janúar).