Stúdentar við Háskólann í Århus fá nú í síauknum mæli lífrænan mat í matstofum háskólans, en rekstaraðili matstofanna hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði 90% af öllum matvælum háskólans lífrænt vottuð. Þessi þróun á ekki að leiða til hækkaðs verðlags, en hins vegar mun framboð og meðferð matvæla taka breytingum. Þannig mun maturinn í auknum mæli verða árstíðabundinn og stærri hluti hans framleiddur á staðnum. Áform háskólans ganga nokkru lengra en markmið dönsku ríkisstjórnarinnar, en þar á bæ er stefnt að því að 60% af öllum mat í eldhúsum hins opinbera verði lífræn árið 2020.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 25. febrúar).