Heilbrigðisyfirvöld í Kaliforníu tilkynntu í fyrradag að þau hefðu skilgreint rafrettur sem heilsufarsógn og að þörf væri á að laga reglur um sölu og notkun rafretta að því sem gildir um venjulegar tóbaksvörur. Í skýrslu Heilbrigðisstofnunar Kaliforníu kemur fram að þrátt fyrir að rafrettur hafi minni neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu en hefðbundnir vindlingar, gefi þær enga að síður frá sér krabbameinsvaldandi efni og ýti undir að Bandaríkjamenn verði háðir nikótíni. Þörf sé á auknum rannsóknum á langtímaáhrifum rafretta á heilsu auk þess sem samræma þurfi reglugerðir um innihaldsmerkingar, viðvaranir, markaðsetningu og sölu. Sérstaka áherslu þurfi að leggja á forvarnir gegn nikótíninntöku barna, en sífellt fleiri börn undir 5 ára aldri fá nikótíneitrun eftir að hafa gleypt rafrettufyllingar (fljótandi nikótín). Slík tilfelli í Kaliforníu voru 7 árið 2012 en 154 árið 2014. Vinsældir rafrettunnar hafa aukist gríðarlega og leitt til mjög breyttrar nikótíneyslu án þess að yfirvöld hafi brugðist við.
(Sjá frétt ABC News 28. janúar).