Grænþvottur í tískugeiranum

26111Fyrirtæki í tískugeiranum sem segjast leggja áherslu á sjálfbærni, geta mörg hver ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í nýjustu „FeelGoodFashion-skýrslu“ vefsíðunnar Rank A Brand kemur fram að af þeim 368 tískuvörumerkjum sem rannsökuð voru staðhæfðu um 50% að verkefni væru í gangi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en aðeins 4% gátu sýnt fram á samdrátt í losun. Sömu sögu var að segja um lífræn og endurunnin efni, en mörg fyrirtæki kváðust nota slík efni í vörur sínar án þess að geta sannað hlutfall þeirra í vörunum. Sífellt fleiri aðilar í tískugeiranum upplýsa um umhverfisáherslur sínar og gildir það nú um 63% af öllum vörumerkjum í greininni. Að mati Rank A Brand er þar um grænþvott að ræða í 30% tilvika, þ.e.a.s. upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi viðkomandi fyrirtækja.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Annar hver banani í Svíþjóð með Fairtradevottun í árslok

???????????????????????????????Annar hver banani seldur í Svíþjóð verður Fairtrade vottaður í lok 2014 samkvæmt nýjum sölumarkmiðum Fairtradesamtaka Svíþjóðar (Fairtrade Sverige). Samkvæmt upplýsingum frá Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UNCTAD) eru bananar fjórða mikilvægasta fæðutegundin í heiminum í dag (á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís) en vinnuskilyrði á bananaekrum í framleiðslulöndum eru oft mjög slæm, enda mikil áhersla lögð á að halda framleiðslukostnaði í lágmarki. Mánaðarlaun eru því oft mjög lág, mikið er notað af aðföngum sem eru skaðleg umhverfi og heilsu og oft er stór hluti vinnuafls börn og unglingar. Árið 2013 voru um 9% af bönunum í Svíþjóð Fairtradevottaðir, en til samanburðar má nefna að í Sviss var hlutfallið 55%.
(Sjá frétt Fairtrade Sverige 7. mars).

Gazprom og GAP kosin verstu fyrirtæki í heimi

Gazprom160Rússneski olíu- og gasrisinn Gazprom og bandaríski fataframleiðandinn GAP fengu skammarverðlaunin Public Eye Awards þetta árið, en verðlaunin eru veitt árlega á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos þeim fyrirtækjum sem almenningur kýs sem verstu fyrirtæki í heimi. Gazprom fékk 95.277 atkvæði í kjörinu, en á árinu 2013 varð fyrirtækið fyrst til að hefja olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og tókst strax á fyrstu mánuðunum að brjóta ýmsar reglur um öryggis- og umhverfismál. GAP varð fyrir valinu hjá sérstakri dómnefnd um versta fyrirtækið, en GAP neitað að skrifa undir samkomulag um bindandi reglur um bruna- og öryggismál í fataverksmiðjum í Bangladesh.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 23. janúar).

Réttlætismerking viðurkennd í opinberum innkaupum

FLO ESBStjórnvöld í löndum Evrópusambandsins geta hér eftir tekið fullt tillit til réttlætismerkinga („fairtrade vottunar“) í innkaupum sínum eftir að Evrópuþingið samþykkti nýja tilskipun um opinber innkaup í síðustu viku. Með þessu er staðfest sú niðurstaða Evrópudómstólsins í svonefndu Norður-Hollandsmáli að leyfilegt sé að láta „fairtrade uppruna“ gilda til stiga í opinberum útboðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade International 17. janúar).

Réttlætismerki í 25 ár

Fairtrade 25 áraRéttlætismerkingar (siðgæðisvottanir (e. Fairtrade)) eiga 25 ára afmæli um þessar mundir. Fyrsta merkið af þessu tagi var hollenska Max Havelaar merkið, og fyrsta vottaða varan var kaffi frá Mexíkó sem selt var í hollenskum stórmörkuðum haustið 1988. Þetta frumkvæði Hollendinga er orðið að alþjóðlegri hreyfingu og nú eru „Fairtrade-vörur“ seldar fyrir um 4,8 milljarða evra (um 790 milljarða ísl. kr.) á ári. Vottaðar vörur eru um 30.000 talsins, og er áætlað að um 1,35 milljónir bænda og landbúnaðarverkamanna njóti góðs af þessum viðskiptum.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade International (FLO) 13. nóvember).

Leigja treyju?

LeasefleeceFyrirtækið Mud Jeans í Hollandi býður nú hettupeysur til leigu, gerðar úr endurunnum gallabuxum úr lífrænni bómull, auk viskósblöndu. Leigjendur geta valið um að greiða 100 evrur í upphafi leigutímans, sem getur verið eins langur og verkast vill, eða greiða 20 evrur í upphafi og síðan 5 evrur á mánuði þar til sömu hámarksupphæð er náð. Þegar flíkinni er skilað, sem getur gerst hvenær sem er, er 20 evru skilagjald endurgreitt í báðum tilvikum í formi afsláttar af næstu viðskiptum. Með þessu móti er fötunum aldrei hent, heldur er allt efnið endurunnið að notkun lokinni. Verkefnið gengur undir nafninu Lease a fleece.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Stóraukin sala á vottuðu kaffi vestanhafs

Rainforest AllianceSala á vottuðum kaffibaunum í Bandaríkjunum og í Kanada jókst verulega á síðasta ári. Þannig jókst innflutningur á réttlætismerktum baunum (e. Fairtrade) til þessara landa um 18% frá árinu áður og nam samtals um 74.000 tonnum. Alls runnu 32 milljónir dollara (tæplega 3,8 milljarðar ísl. kr.) af söluandvirðinu til samfélagsverkefna í heimahögum framleiðenda. Þá náði kaffi með vottun samtakanna Rainforest Alliance 4,5% markaðshlutdeild á heimsvísu á síðasta ári. Árið 2011 var þetta hlutfall 3,3%, og aðeins 1,5% árið 2009. Á árinu 2012 voru seld samtals 375.000 tonn af kaffi með slíka vottun.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims sinna lítt um fólk og umhverfi

Food-companies-and-ethica-009Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims fá nánast falleinkun í nýrri skýrslu Oxfam um frammistöðu fyrirtækjanna í umhverfis- og samfélagsmálum. Í skýrslunni, sem ber yfirskriftina „Á bak við merkin“, eru fyrirtækjunum gefnar einkunnir fyrir 7 þætti, þ.e. „land“, „konur“, „bændur“, „verkamenn“, „loftslag“, „gagnsæi“ og „vatn“. Nestlé kemur skást út úr þessum samanburði, en fær þó aðeins 38 stig af 70 mögulegum. ABF (Associated British Foods) vermir botnsætið með aðeins 13 stig, og Kellogg’s og General Mills eru litlu ofar með 16 stig. Öll hafa fyrirtækin gefið út yfirlýsingar um mikilvægi ábyrgra viðskipta með matvæli, en ekkert þeirra hefur staðið við orð sín hvað það varðar. Oxfam hvetur neytendur til að senda fyrirtækjunum skýr skilaboð um að gera betur, enda verði þau ekki lengi stór án neytenda. Fyrst verður sjónum beint að réttindum „kvennanna á bak við súkkulaðið“.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Háskólinn á Þelamörk verður réttlætisskóli

fairtrade NorgeStjórn Háskólans á Þelamörk í Noregi hefur samþykkt að skólinn verði fyrsti norski réttlætisháskólinn. Nú þegar hafa allnokkrir skólar í Noregi fengið viðurkenningu sem réttlætisskólar (e. Fairtrade School), en enginn háskóli er í þeim hópi. Til þess að ná þessu markmiði þarf skólinn m.a. að tryggja tiltekið framboð af réttlætismerktum vörum á fundum á vegum skólans, á kaffistofum og annars staðar þar sem vörur á borð við kaffi, sykur og te eru á boðstólum. Þá þarf að vera starfandi sérstakur réttlætisstýrihópur starfsmanna og stúdenta, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade í Noregi 17. desember).

54 réttlætisbæir í Svíþjóð

Fairtrade-1-300x200Í lok nóvember fékk Östersund í Svíþjóð formlega vottun sem réttlætisbær (e. Fairtrade City) og á næstu vikum fylgja Härnösand og Öckerö í kjölfarið. Þar með verða réttlætisbæir Svíþjóðar orðnir 54 talsins. Til að fá viðurkenningu af þessu tagi þurfa sveitarfélög að uppfylla tiltekin skilyrði um innkaup á réttlætismerktum vörur og vinna markvisst að félagslega sjálfbærri neyslu.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade í Svíþjóð 5. desember).