Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims sinna lítt um fólk og umhverfi

Food-companies-and-ethica-009Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims fá nánast falleinkun í nýrri skýrslu Oxfam um frammistöðu fyrirtækjanna í umhverfis- og samfélagsmálum. Í skýrslunni, sem ber yfirskriftina „Á bak við merkin“, eru fyrirtækjunum gefnar einkunnir fyrir 7 þætti, þ.e. „land“, „konur“, „bændur“, „verkamenn“, „loftslag“, „gagnsæi“ og „vatn“. Nestlé kemur skást út úr þessum samanburði, en fær þó aðeins 38 stig af 70 mögulegum. ABF (Associated British Foods) vermir botnsætið með aðeins 13 stig, og Kellogg’s og General Mills eru litlu ofar með 16 stig. Öll hafa fyrirtækin gefið út yfirlýsingar um mikilvægi ábyrgra viðskipta með matvæli, en ekkert þeirra hefur staðið við orð sín hvað það varðar. Oxfam hvetur neytendur til að senda fyrirtækjunum skýr skilaboð um að gera betur, enda verði þau ekki lengi stór án neytenda. Fyrst verður sjónum beint að réttindum „kvennanna á bak við súkkulaðið“.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Landabrask ógnar fæðuframleiðslu

Erlendir fjárfestar og framleiðendur lífeldsneytis hafa keypt upp landsvæði á síðasta áratug sem hefðu dugað til að fæða nær þúsund milljón manns. Þetta kemur fram í skýrslu Oxfam sem kom út í dag. Um er að ræða spildur sem eru samtals u.þ.b. áttfalt stærri en Bretland. Þetta land hefur ýmist verið tekið undir orkugróður eða látið bíða eftir hærra endursöluverði. Mest hafa landakaupin verið í þróunarlöndum með alvarlegan hungurvanda. Þannig hafa nær 30% af öllu landi í Líberíu verið seld til stórra fjárfesta og um 65% af öllu ræktanlegu landi í Kambódíu. Í skýrslu sinni biðlar Oxfam til Alþjóðabankans að hætta stuðningi við landabrask af þessu tagi.
(Sjá umfjöllun The Guardian í dag).