Loftslagsmál útskýrð á 9 mínútum

ipcc stuttmyndNý norsk stuttmynd sem útskýrir stöðu loftslagsmála á 9 mínútum var frumsýnd á loftslagsráðstefnunni í Varsjá á dögunum. Myndin, sem Snöball film gerði fyrir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), hentar vel til að kynna loftslagsmál í skólum og annars staðar þar sem þörf er fyrir einfaldar og samþjappaðar útskýringar.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 22. nóvember).

Vaxandi notkun hættulegra efna í byggingariðnaði

ByggebransjenUmhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) hefur áhyggjur af vaxandi notkun hættulegra efna í byggingariðnaði þar í landi. Á síðustu tveimur árum hefur notkun slíkra efna aukist, án þess að hægt sé að skýra það með vaxandi umsvifum í greininni. Um er að ræða ýmis efni sem leynast í einangrun, lími, fúgusementi og málningu, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu stofnunarinnar 7. nóvember).

Nissan Leaf söluhæsti bíllinn í Noregi í október

Nissan Leaf NORafbíllinn Nissan Leaf var söluhæsti fólksbíllinn í Noregi í október. Þá seldust 716 slíkir bílar, eða sem nemur 5,6% af allri bílasölu í landinu. Þetta var annar mánuðurinn í röð þar sem rafbíll er efstur á sölulistanum, en í september var sportbíllinn Tesla S á toppnum með 616 selda bíla. Markaðshlutdeild Nissan Leaf er 3,2% það sem af er árinu og hafa aðeins þrjár bílategundir selst betur. Norðmenn virðast vera í broddi fylkingar í rafbílavæðingunni, en það er m.a. rakið til ríkulegra niðurgreiðslna, niðurfellingar bílastæðagjalda, ókeypis aðgangs að hleðslustöðvum, undanþágu frá vegatollum og aðgangs að strætisvagnaakreinum.
(Sjá frétt Reuters 1. nóvember).

Brjóstapúðar safna eiturefnum

BrjostapudiNotaðir brjóstapúðar geta nýst til mælinga á þrávirkum efnum í líkömum kvenna. Sílikonið í púðunum dregur í sig og varðveitir ýmis eiturefni, þannig að þegar púðarnir eru fjarlægðir veita þeir mikilvægar upplýsingar til viðbótar þeim sem fást við efnagreiningar á blóðsýnum og sýnum úr brjóstamjólk. Norskir vísindamenn komust að þessu eftir að hafa fengið leyfi til að efnagreina púða sem fjarlægðir höfðu verið úr 22 konum á læknastofu í Osló. Í raun fara mikilvægar upplýsingar til spillis þegar notuðum brjóstapúðum er hent „ólesnum“.
(Sjá frétt á forskning.no í dag).

Stóraukin sala á lífrænum matvælum í Noregi

Debio lífrænt 2013Á fyrri helmingi þessa árs seldust lífrænt vottuð matvæli í Noregi fyrir 657,2 milljónir norskra króna (um 13,3 milljarða ísl. kr.), en það samsvarar nær 15% aukningu miðað við sama tímabil í fyrra. Munar þar mest um gríðarlega sölu á lífrænu grænmeti, einkum gulrótum og agúrkum. Þannig var agúrkusalan á fyrri helmingi ársins álíka mikil og allt árið í fyrra.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio í Noregi 18. september).

PFOA bannað í Noregi

PFOAFrá og með 1. júní 2014 mega neytendavörur sem seldar eru í Noregi ekki innihalda efnið PFOA (perflúoroktansýru). Með þessu banni ganga norsk stjórnvöld lengra en Evrópusambandið, en rökin eru þau að efnið sé eitrað fyrir þá sem umgangast það oft, krabbameinsvaldandi og dragi úr frjósemi, auk þess sem það brotni mjög hægt niður í náttúrunni. Efnið safnast einnig fyrir í líkömum fólks og hefur m.a. fundist í blóði og móðurmjólk. PFOA getur verið til staðar í ýmsum vörum til daglegra nota. Efnið hrindir frá sér vatni og fitu og hefur m.a. verið notað í málningu, regnfatnað, skíðaáburð og steikarpönnur (teflon).
(Sjá frétt á heimasíðu norska umhverfisráðuneytisins 17. september).

Vilja banna BPA

binary-1145323-17665Neytendasamtök Noregs (Forbrukerrådet) krefjast þess að bannað verði að nota efnið Bisfenól-A (BPA) í matarumbúðir. Þessi krafa kemur í kjölfar tilraunar sem samtökin gerðu í samvinnu við neytendaþátt norska ríkissjónvarpsins (NRK Forbrukerinspektørene) á tveimur starfsmönnum úr eigin röðum. Starfsmennirnir snæddu eingöngu dósamat í tvo daga, og strax eftir fyrri daginn hafði styrkur BPA í þvagi þeirra hækkað um rúmlega 1.000%. Niðursuðudósir og aðrar loftþéttar matarumbúðir eru í mörgum tilvikum húðaðar að innan með BPA til að koma í veg fyrir að málmur í umbúðunum tærist og mengi matvælin. Efnið er talið vera hormónaraskandi og draga úr frjósemi, auk annarra skaðlegra áhrifa á heilsu manna. Í löndum Evrópusambandsins er bannað að nota efnið í vörur á borð við ungbarnapela og snuð, og í Frakklandi verður BPA alfarið bannað í matarumbúðum frá og með árinu 2015.
(Sjá frétt á heimasíðu Forbrukerrådet 10. apríl).

Lífrænar vörur í mikilli sókn í Noregi

DebioÍ Noregi jókst sala á lífrænt vottuðum vörum um rúm 17% á árinu 2012 og nam samtals 1,5 milljörðum norskra króna (um 32 milljörðum ísl. kr). Mest var söluaukningin í lífrænum barnamat. Þar jókst salan um tæp 32% milli ára, en um 23% af öllum barnamat sem seldur er í Noregi er nú með lífræna vottun. Lífrænt vottaðar mjólkurvörur eru hins vegar sá vöruflokkur þar sem heildarsalan er mest. Samkvæmt útreikningum Landbúnaðarstofnunar Noregs (SLF) þarf þó að gera enn betur til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um 15% hlutdeild lífrænt vottaðra matvæla árið 2020. Miðað við svipaða aukningu næstu ár verður þetta hlutfall aðeins á bilinu 4-9%.
(Sjá fréttatilkynningu Landbúnaðarstofnunar Noregs 21. mars).

Konur grænni en karlar

Kvinner tenker grøntNorskar konur hugsa meira um umhverfið en karlkyns landar þeirra ef marka má reglubundna neytendakönnun sem Respons Analyse gerði fyrir Svaninn í Noregi. Sem dæmi um þetta má nefna að 57% kvenna svipast um eftir Svansmerkinu þegar þær kaupa inn, en aðeins 39% karla. Konur eru einnig líklegri en karlar til að flokka úrgang og sniðganga einnotavörur. Í þeim þjóðfélagshópi sem hugsar mest um umhverfismál eru konur í miklum meirihluta.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 8. mars).

Norðmenn eiga heimsmet í rafbílavæðingu

Rafbílar TUÍ Noregi eru fleiri rafbílar en í nokkru öðru landi heims, miðað við höfðatölu. Heildarfjöldinn er nú kominn yfir 10.000 og í janúar 2013 voru rafbílar 2,9% af öllum nýjum seldum fólksbílum, eða 337 talsins. Markaðshlutdeild rafknúinna vörubíla var enn hærri, eða 3,3%. Tvinnbílum fjölgar einnig ört í Noregi, en 633 slíkir seldust í janúar.
(Sjá frétt í Teknisk Ukeblad 3. febrúar).