Stóraukin sala á lífrænum matvælum í Noregi

Debio lífrænt 2013Á fyrri helmingi þessa árs seldust lífrænt vottuð matvæli í Noregi fyrir 657,2 milljónir norskra króna (um 13,3 milljarða ísl. kr.), en það samsvarar nær 15% aukningu miðað við sama tímabil í fyrra. Munar þar mest um gríðarlega sölu á lífrænu grænmeti, einkum gulrótum og agúrkum. Þannig var agúrkusalan á fyrri helmingi ársins álíka mikil og allt árið í fyrra.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio í Noregi 18. september).

Lífrænar vörur í mikilli sókn í Noregi

DebioÍ Noregi jókst sala á lífrænt vottuðum vörum um rúm 17% á árinu 2012 og nam samtals 1,5 milljörðum norskra króna (um 32 milljörðum ísl. kr). Mest var söluaukningin í lífrænum barnamat. Þar jókst salan um tæp 32% milli ára, en um 23% af öllum barnamat sem seldur er í Noregi er nú með lífræna vottun. Lífrænt vottaðar mjólkurvörur eru hins vegar sá vöruflokkur þar sem heildarsalan er mest. Samkvæmt útreikningum Landbúnaðarstofnunar Noregs (SLF) þarf þó að gera enn betur til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um 15% hlutdeild lífrænt vottaðra matvæla árið 2020. Miðað við svipaða aukningu næstu ár verður þetta hlutfall aðeins á bilinu 4-9%.
(Sjá fréttatilkynningu Landbúnaðarstofnunar Noregs 21. mars).