Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af hnattrænni hlýnun en er nokkuð sama um loftslagsbreytingar ef marka má niðurstöður samstarfsverkefnis háskólanna Yale og George Mason. Verkefnið leiddi í ljós að hugtökin tvö, hnattræn hlýnun og loftslagsbreytingar sem gjarnan eru notuð sem samheiti í daglegri umræðu, vekja mjög ólík viðbrögð hjá fólki. Þannig eru Bandaríkjamenn 13% líklegri til að líta á hnattræna hlýnun sem vandamál en loftslagsbreytingar. Fólk virðist tengja hnattræna hlýnun við bráðnum jökla, hækkandi sjávarborð, ofsaveður, o.s.frv. Hins vegar hefur hugtakið loftslagsbreytingar ekki þessa sömu skírskotun í hugum fólks. Munurinn er enn meiri meðal minnihlutahópa, kvenna og ungs fólks, en sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn af Suður-amerískum uppruna eru 30% líklegri til að telja sér stafa ógn af hnattrænni hlýnun en loftslagsbreytingum. Samkvæmt þessu skiptir miklu máli hvaða hugtök eru notuð þegar rætt er við fólk um þessi mál.
(Sjá frétt The Guardian í dag).