Niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar sem kynntar voru fyrr í dag benda til að samverkandi áhrif hlýnunar, súrnunar og minnkandi súrefnismettunar hafi mun meiri skaðleg áhrif á lífríkið í höfunum en menn hafa áður gert sér grein fyrir, og er jafnvel talað um „banvæna þrenningu“ í þessu sambandi. Hafið hlýnar smám saman vegna hlýnunar andrúmsloftsins, súrnar vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu og verður súrefnissnauðara vegna aukins þörungagróðurs í kjölfar útskolunar næringarefna frá landi. Ástandið í höfunum er orðið svipað því sem það var á Paleósen-Eósen mörkunum fyrir um 55 milljónum ára þegar fjöldi tegunda dó út. Breytingarnar sem nú eru að verða gerast hins vegar mun hraðar en þá.
(Sjá frétt Reuters í dag)