Sviss stendur sig best í umhverfismálum

Sviss stendur sig þjóða best í umhverfismálum ef marka má nýja skýrslu Yale-háskólans um umhverfisvísitölur þjóða (Environmental Performance Index (EPI)) sem gefin er út annað hvort ár og birt í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos. Há einkunn Sviss (87,42) endurspeglar góða frammistöðu á ýmsum sviðum, einkum þó hvað varðar loftgæði og loftslagsvernd. Frakkland, Danmörk, Malta og Svíþjóð raða sér í næstu sæti, en Ísland vermir 11. sætið og hefur fallið úr 2. sæti þar sem það var statt fyrir tveimur árum. EPI-skýrslan er nú birt í 10. sinn og í henni er 180 þjóðum raðað eftir frammistöðu í 24 atriðum, auk þess sem lagt er mat á þróun mála í hverju landi um sig síðustu árin. Almennt hefur staðan á heimsvísu batnað í málum á borð við neysluvatn og hreinlæti, en á öðrum sviðum er mikilla úrbóta þörf. Léleg loftgæði eru stærsta ógnin við lýðheilsu eins og staðan er í dag.
(Sjá frétt á heimasíðu Yale-háskólans 23. janúar).

Er hnattræn hlýnun hættulegri en loftslagsbreytingar?

climatechange_globalwarmingBandaríkjamenn hafa áhyggjur af hnattrænni hlýnun en er nokkuð sama um loftslagsbreytingar ef marka má niðurstöður samstarfsverkefnis háskólanna Yale og George Mason. Verkefnið leiddi í ljós að hugtökin tvö, hnattræn hlýnun og loftslagsbreytingar sem gjarnan eru notuð sem samheiti í daglegri umræðu, vekja mjög ólík viðbrögð hjá fólki. Þannig eru Bandaríkjamenn 13% líklegri til að líta á hnattræna hlýnun sem vandamál en loftslagsbreytingar. Fólk virðist tengja hnattræna hlýnun við bráðnum jökla, hækkandi sjávarborð, ofsaveður, o.s.frv. Hins vegar hefur hugtakið loftslagsbreytingar ekki þessa sömu skírskotun í hugum fólks. Munurinn er enn meiri meðal minnihlutahópa, kvenna og ungs fólks, en sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn af Suður-amerískum uppruna eru 30% líklegri til að telja sér stafa ógn af hnattrænni hlýnun en loftslagsbreytingum. Samkvæmt þessu skiptir miklu máli hvaða hugtök eru notuð þegar rætt er við fólk um þessi mál.
(Sjá frétt The Guardian í dag).