Fjármálaráðuneyti Svíþjóðar kynnti á dögunum tillögu að breytingum á virðisaukaskatti sem miðar að því að lengja líftíma vöru m.a. með því að gera viðgerðir ódýrari. Aðgerðirnar eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er stefnt að því að lækka virðisaukskatt á minni háttar viðgerðum og fyrirbyggjandi viðhaldi úr 25% í 12% og lækka þar með kostnað vegna viðgerða á hjólum, skóm, fatnaði, leðurvörum, húsgögnum o.fl. Í öðru lagi á að veita skattafrádrátt vegna viðgerða á heimilistækjum á borð við þvottavélar, ísskápa, uppþvottavélar og eldavélar. Og í þriðja lagi fá minnstu fyrirtækin (með ársveltu undir 30.000 sænskum krónum (um 450.000 ísl.kr.)) undanþágu frá skilum á virðisaukaskatti. Þessar aðgerðir eiga að auðvelda neytendum að láta gera við bilaðar vörur í stað þess að kaupa nýjar, auk þess sem þær auðvelda smáfyrirtækjum að komast inn á markaðinn. Áformað er að breytingarnar taki gildi 1. júní 2017.
(Sjá fréttatilkynningu Regeriengskansliet 24. mars).