Evrópusambandið samþykkti í dag bann við notkun metýlísóþíasólínóns (MI) og þriggja annarra efna í leikföng fyrir börn undir þriggja ára aldri og í öllum nagleikföngum. MI er rotvarnarefni sem m.a. hefur verið notað í andlitsmálningu fyrir börn og hafa ofnæmisviðbrögð við efninu farið mjög í vöxt á síðustu árum. Tvö hinna efnanna eru einnig ofnæmisvaldandi rotvarnarefni, en þar er um að ræða bensísóþíasólínón (BIT) og klórmetýlísóþíasólínón (CMI). Fjórða efnið er formamíð sem talið er hormónaraskandi og má meðal annars finna í leikmottum fyrir börn. Eftir sem áður má nota rotvarnarefnin þrjú í snyrtivörur fyrir fullorðna, en norrænir neytendur geta varast þessi efni með því að velja Svansmerktar snyrtivörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í dag).
Greinasafn fyrir merki: ofnæmi
Skaðleg efni í hreinsiklútum
Skaðleg efni fundust í 23 af 30 hreinsiklútum sem dönsku neytendasamtökin Tænk rannsökuðu á dögunum. Athugað var hvort klútarnir innihéldu ofnæmisvaldandi efni, hormónaraskandi efni og ilmefni og í ljós kom að aðeins þriðjungur klútanna var laus við slíkt. Nivea kom einna verst út úr könnuninni, en tvær verstu vörurnar að þessu leyti komu báðar þaðan. Einnig kom í ljós að hátt verð tryggir ekki að varan sé laus við skaðleg efni þar sem ódýrustu klútarnir voru í hópi þeirra bestu. Hreinsiklútar eru einkum notaðir til að fjarlægja farða af andliti og efnin geta því setið alllengi á húðinni. Neytendasamtökin telja þetta sérstaklega slæmt þegar ofnæmisvaldandi efni eiga hlut. Besta leiðin til að forðast hættuleg efni í hreinsiklútum er að velja vörur sem vottaðar eru með Norræna svaninum eða Bláa kransinum sem er merki astma- og ofnæmissamtaka Danmerkur.
(Sjá frétt Søndagsavisen 5. mars).
Skaðleg efni í snyrtivörum fyrir börn
Tíu vörur sem flokkast sem snyrtivörur fyrir börn reyndust allar innihalda skaðleg efni þegar norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) könnuðu innihald þeirra á dögunum í leit sinni að ofnæmisvaldandi og hormónaraskandi efnum. Sex vörutegundir innihéldu sérstaka tegund af útblámasíu (e. UV-filter) sem ESB hefur skilgreint sem hormónaraskandi og mælt með að ekki sé notuð í vörur fyrir börn. Þá fannst ilmefnið Lyral í þremur vörum, en árið 2011 lagði vísindanefnd ESB til að Lyral yrði bannað í vörum fyrir börn vegna þess hversu öflugur ofnæmisvaldur það er. Að mati Forbrukerrådet gefa þessar niðurstöður skýrt til kynna að þörf sé á strangari reglugerðum um efni í neytendavörum, og þá sérstaklega þegar um er að ræða vörur sem markaðsettar eru fyrir börn.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 22. janúar).
Tríklósan finnst enn í svitalyktareyði
Tríklósan fannst í þremur tegundum af svitalyktareyði í nýlegri rannsókn norsku samtakanna Framtiden i våre hender, en tríklósan getur gert bakteríur ónæmar fyrir sýklalyfjum. Skaðsemi efnisins hefur verið þekkt um árabil og hefur Matvælastofnun Noregs lengi barist fyrir banni á notkun þess í neytendavörum. Í rannsókninni voru 28 svitalyktareyðar skoðaðir og reyndust þeir innihalda ýmis umhverfis- og heilsuskaðleg efni önnur en tríklósan. Þannig fundust ofæmisvaldandi ilmefni í 21 tegund, fimmtán innihéldu ál, fjögur innihéldu sílikonsambandið cyclopentasiloxane, míkróplast fannst í tveimur tegundum og ein innihélt silfur. Oft er mikið af skaðlegum efnum í snyrtivörum, og eru svitalyktareyðar einn versti vöruflokkurinn hvað það varðar. Af þeim 28 tegundum sem skoðaðar voru telur Framtiden i våre hender sig aðeins geta mælt með notkun tveggja.
(Sjá frétt Framtiden i våre hender 19. ágúst).
Varað við hárlitun
Norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) vara fólk við því að láta lita á sér hárið, sérstaklega þegar í hlut eiga börn, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti. Aðvörunin kemur í kjölfar efnagreiningar samtakanna á 12 tegundum hárlita. Allar tegundirnar innihéldu öfluga ofnæmisvalda og í 10 þeirra fundust auk þess hormónaraskandi efni. Samtökin benda á að ofnæmi fyrir efnum í hárlitum fylgi fólki allt lífið, en þeir sem vilji eftir sem áður fá lit í hárið ættu að kaupa þá þjónustu á „grænum hárgreiðslustofum“. Að sögn talsmanns samtakanna gerir almenningur sér ekki grein fyrir því að hárlitir eru „botnvörur“ (n. versting-produkter) í heilsufarslegu tilliti. Samtökin lýsa eftir aðgerðaáætlun stjórnvalda um eiturlausan hversdag, en slíkar áætlanir hafa lengi verið til í Danmörku og Svíþjóð.
(Sjá fréttatilkynningu Forbrukerrådet 9. janúar).
Sýklalyf stórlega ofnotuð við hálsbólgu
Læknar eru alltof viljugir að ávísa sýklalyfjum við hálsbólgu og bráðri berkjubólgu ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Harvardháskóla í Bandaríkjunum sem sagt er frá í tímaritinu JAMA Internal Medicine. Þarlendis ávísi læknar sýklalyfjum til 60% þeirra sem leita til þeirra vegna hálsbólgu, og þegar um berkjubólgu er að ræða er hlutfallið 73%. Þetta gerist þrátt fyrir að aðeins 10% hálsbólgutilfella og nær engin berkjubólgutilfelli stafi af bakteríusýkingum. Þessi mikla og gagnslausa sýklalyfjanotkun stuðli að vexti lyfjaónæmra baktería, auk þess sem fólk sé þarna að setja eitthvað inn í líkamann sem hann hafi enga þörf fyrir en stuðli þess í stað að aukaverkunum á borð við ofnæmi, sveppasýkingar og ógleði.
(Sjá frétt Science Daily 4. október).
Ofnæmisvaldar í nær öllum hárlitum
Í nýrri athugun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) reyndust 363 af 365 hárlitum innihalda litarefni sem geta valdið ofnæmi eða öðrum heilsufarsvandamálum. Hvorug þeirra tveggja tegunda sem stóðust prófið fást á almennum markaði og báðar eru með rauðum litarefnum sem henta ekki endilega öllum. Þeir sem vilja forðast ofnæmi ættu helst að sleppa því að lita á sér hárið, en fá sér strípur ella. Telji fólk hárlit nauðsynlegan er ástæða til að kynna sér innihaldsefnin vandlega.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk í gær).
Hertar reglur í ESB um merkingu hárlita
Þann 1. nóvember sl. gengu í gildi reglur innan Evrópusambandsins um að hárlitir sem innihalda mjög ofnæmisvaldandi efni skuli merktir með sérstökum varúðarmerkingum, þ.á.m. um að tilteknir litir séu ekki ætlaðir börnum yngri en 16 ára. Eftir því sem fólk er yngra þegar það byrjar að nota hárliti er meiri hætta á að það þrói með sér ofnæmi gegn litarefnunum. Umræddar reglur gilda aðeins um sterkustu ofnæmisvaldana, þannig að áfram verða mildari hárlitir seldir án sérstakra varúðarmerkinga, jafnvel þótt þeir innihaldi ofnæmisvaldandi efni. Umræddar reglur taka væntanlega ekki gildi á Íslandi fyrst um sinn.
(Sjá frétt á Forbrugerkemi.dk 1. nóvember).
Ofnæmisvaldar í flestum hárlitum
Nær útilokað er að finna hárliti sem hvorki innihalda ofnæmisvalda né önnur skaðleg efni. Í könnun sem gerð var á vegum danska neytendablaðsins Tænk fundust sterkir eða meðalsterkir ofnæmisvaldar í 20 litum af 30 sem prófaðir voru. Hinir 10 innihéldu allir væga ofnæmisvalda eða önnur efni sem geta verið skaðleg umhverfi eða heilsu.
(Sjá nánar í frétt á forbrugerkemi.dk 10. sept. sl).