Ákveðið hefur verið að flétta áherslur sjálfbærrar þróunar inn í námsefni allra námsbrauta við Viðskiptaháskólann í Gautaborg. Nemendur við skólann hafa um árabil haft aðgang að námskeiðum um sjálfbæra þróun og tekið þátt í rannsóknum á því sviði, en héðan í frá verður séð til þess að allir kandidats- og meistaranemar læri um sjálfbæra þróun sem hluta af reglulegu námi. Skólayfirvöld telja þessa menntun mikilvægan lið í að undirbúa nemendur fyrir framtíðarstörf sín sem t.d. lögfræðingar, hagfræðingar og stjórnendur. Þeim sé nauðsynlegt að læra að skilja og fást við sífellt erfiðari siðferðilegar spurningar og þau flóknu hnattrænu viðfangsefni sem samfélagið stendur frammi fyrir.
(Sjá frétt á heimasíðu skólans 30. september).