Búnaður til að nýta afgangshita frá bakhlið ísskápa hefur verið settur upp í 30 matvöruverslunum Sainsbury’s í Bretlandi, og í nánustu framtíð er stefnt að sams konar breytingum á a.m.k. 70 verslunum til viðbótar. Yfir sumartímann er hiti frá ísskápunum leiddur niður í einangruð jarðvegshólf undir verslununum og þegar kólnar í veðri eru varmadælur nýttar til að skila hitanum til baka inn í húsnæðið. Í hverri verslun eru fjölmörg kæli- og frystitæki og því geta varmadælurnar annað allri nauðsynlegri húshitun í verslununum, en það samsvarar um þriðjungi af allri orkuþörf þeirra. Verkefnið er eitt af mörgum umhverfisverkefnum Sainsbury’s keðjunnar sem öll taka mið af hinu þreföldu núlli, þ.e. að ekkert kolefni sé losað frá starfseminni út í andrúmsloftið, að starfsemin hafi engin neikvæð áhrif á vatnsgæði og að enginn úrgangur sé sendur til urðunar.
(Sjá frétt EDIE 16. febrúar).