Erlend landbúnaðarfyrirtæki stuðla að vatnsskorti í Afríku

africa-green-waterMikil vatnsþörf korntegunda sem ræktaðar eru á svæðum sem erlend fyrirtæki hafa tekið á leigu í Afríku til landbúnaðarnota á sinn þátt í vaxandi vatnsskorti í álfunni og harðari samkeppni um vatnsauðlindina. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi, sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Það sem af er öldinni hafa erlend fyrirtæki tekið á leigu stórar spildur í Afríku í þeim tilgangi að rækta þar ódýrar matjurtir, ódýrt timbur og ódýrt hráefni til framleiðslu á lífeldsneyti. Tegundirnar sem ræktaðar eru á þessum svæðum eru iðulega frekari á vatn en þær tegundir sem ræktaðar hafa verið á svæðunum til þessa. Þessu hefur fylgt stóraukin nýting á ferskvatni til vökvunar í stað regnvatns sem áður dugði að mestu leyti. Leigusamningar um land í Afríku eru gjarnan gerðir til allt að 99 ára og fela sjaldnast í sér nokkrar takmarkanir á vatnsnotkun.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Úrgangs-, vatns- og kolefnishlutlaus verslun

SainsburysBreska verslunarkeðjan Sainsbury’s opnaði á dögunum nýja verslun í Leicester, sem er sérstök að því leyti að engum úrgangi þaðan er fargað, auk þess sem reksturinn er kolefnishlutlaus og ekkert vatn er notað umfram það sem þegar var til staðar í vatnsveitu svæðisins. Meðal þess sem gert er til að ná þessum árangri má nefna, að í staðinn fyrir gas sem verslunin kaupir úr dreifikerfi svæðisins er sama magni af lífgasi bætt inn í kerfið frá metangasveri keðjunnar, auk þess sem um 70% af venjulegri vatnsþörf er mætt með regnvatni og vatnssparandi aðgerðum en þeim 30% sem á vantar með því að kosta sparnaðaraðgerðir hjá öðrum notendum vatnsveitunnar. Allir matarafgangar sem hæfir eru til manneldis eru gefnir hjálparsamtökum en annað nýtt í fóðurframleiðslu eða í einstaka tilvikum í gasgerð.
(Sjá frétt EDIE í dag).