Lífeldsneyti er í vaxandi mæli notað í flugsamgöngum, en á síðustu árum hafa um 40 flugfélög flogið um 600.000 mílur (hátt í milljón km) á slíku eldsneyti. Í skýrslu samtakanna NRDC kemur fram að flugfélög leggi sífellt meiri áherslu á íblöndun lífeldsneytis í flugvélaeldsneyti og á sama tíma hafi fyrirtækin ráðist í fjöldann allan af frumkvöðlaverkefnum á þessu sviði. Árlega losar flugið um 650 milljón tonn af koltvísýringi, sem samsvarar losun um 136 milljón bíla. Flugfélög heimsins stefna að því að losun frá flugsamgöngum nái hámarki árið 2020 og að árið 2050 verði nettólosunin helmingi minni en hún var 2005. Telja má víst að aukin notkun sjálfbærra orkugjafa sé undirstaða þess að hægt verði að standa við þessi fyrirheit.
(Sjá frétt EDIE í dag).