Með opnun þriðja vindorkulundar IKEA í Svíþjóð í gær er fyrirtækið orðið óháð öðrum um orku fyrir starfsemi sína á Norðurlöndunum, þar sem raforkuframleiðsla fyrirtækisins á svæðinu er orðin meiri en heildarnotkunin. IKEA hefur sett sér það markmið að vera sjálfu sér nægt um orku á heimsvísu árið 2020 og segir talsmaður fyrirtækisins að stórum áfanga hafi verið náð í gær. IKEA hefur til þessa fjárfest fyrir um 1,5 milljarða sænskra króna (SEK) (um 24 milljarða ísl. kr.) í endurnýjanlegri orku í Svíþjóð og í árslok verður heildarfjárfesting þeirra á þessu sviði á heimsvísu væntanlega komin í 14 milljarða SEK (um 222 milljarða ísl. kr.). Fyrirtækið á nú 46 vindmyllur í Svíþjóð og að sögn fulltrúa Orkustofnunar Svíþjóðar er árangur fyrirtækisins dæmi um þann árangur sem atvinnulífið getur náð með frumkvæði og ábyrgð í eigin rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu IKEA 27. maí).
Greinasafn fyrir merki: vindorka
Breska ríkisstjórnin svíkur grænt loforð
Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar í Bretlandi hafa þarlend stjórnvöld veitt 300 sinnum meira fé til stuðnings við vinnslu og nýtingu jarðefnaeldsneytis erlendis en til þróunar sjálfbærra orkugjafa. Yfirvöld hafa þannig rofið hið svokallaða „græna fyrirheit“ í stjórnarsáttmálanum frá 2010, þar sem ríkisstjórnin hét því að ýta undir þróun sjálfbærra orkugjafa erlendis og velja slíka orkugjafa umfram aðra. Í sáttmálanum kom einnig fram að ríkisstjórnin vildi vera leiðandi í útflutningi þekkingar og tækni sem tengist sjálfbærri orku. Stuðningur við óendurnýjanlega orkugjafa er kominn í samtals um 1,13 milljarða punda (um 229 milljarða ísl. kr.) það sem af er, aðallega í formi lána og lánatrygginga vegna verkefna í Brasilíu og Rússlandi. Hins vegar hafa aðeins um 3,6 milljónir punda (um 728 milljónir ísl. kr.) farið í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku erlendis, og var þeirri upphæð nánast allri varið í uppbyggingu vindorkuvers í Þýskalandi.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Milljörðum sóað í illa staðsett orkuver
Um 100 milljarðar bandaríkjadala (um 13.000 milljarðar ísl. kr.) hefðu sparast á síðustu árum ef stjórnvöld í Evrópu hefðu skipulagt staðsetningar endurnýjanlegra raforkuvera betur, að því er fram kemur í skýrslu sem kynnt var á efnahagsráðstefnunni í Davos í vikunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að spara hefði mátt 40 milljarða bandaríkjadala (um 5.000 milljarða ísl. kr.) til viðbótar með aukinni samræmingu og öflugri rafstrengjum milli nágrannalanda. Betra skipulag hefði komið í veg fyrir byggingu sólarorkuvera í sólarlitlum löndum og vindorkuvera á skjólsælum stöðum. Sem dæmi má nefna að Spánn fær um 65% meiri orku frá sólinni en Þýskaland, en þó hefur Þýskaland byggt upp sólarorkuver með 600% meiri afkastagetu en Spánn á síðustu árum.
(Sjá frétt Planet Ark 21. janúar).
Hröð uppsveifla í endurnýjanlegri orku
Um 22% af allri framleiddri orku í heiminum kemur nú frá endurnýjanlegum orkugjöfum að því er fram kemur í nýjustu samantekt Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Meiri vöxtur er í greininni en nokkru sinni fyrr og námu fjárfestingar í henni um 150 milljörðum breskra punda árið 2013 (um 29 þús. milljörðum ísl. kr.). Á síðustu árum hafa stjórnvöld margra ríkja endurskoðað og dregið úr hagrænum hvötum sem hafa verið ein helsta undirstaða uppbyggingar í greininni. IEA telur þó að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframleiðslu heimsins ætti að geta náð 26% árið 2020, enda fer stofn- og rekstrarkostnaður lækkandi. Um leið bendir stofnunin á að 27% markmiðið sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér fyrir 2030 sé ekki nógu metnaðarfullt. Hlutfallið verði komið í 30% árið 2030 ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Háloftavindar gætu fullnægt orkuþörf mannkyns
Hægt væri að fullnægja orkuþörf heimsins með því að nýta vindorku í háloftunum að mati bandarískra vísindamanna sem skoðað hafa þennan möguleika. Með eins konar flugdrekatækni væri hægt að virkja nægan vind í allt að 3.000 metra hæð yfir yfirborði jarðar til að útvega 7,5 TW af raforku, eða sem nemur um þrefaldri orkuþörf heimsins. Mikil óvissa ríkir reyndar um mögulegar útfærslur á tækninni, en nú vinna um 20 sprotafyrirtæki að þróun hennar. Orkuframleiðsla af þessu tagi gæti auðveldað umbreytingu yfir í endurnýjanlega orku, einkum í löndum með langa strandlengju.
(Sjá frétt ENN 14. ágúst).
Mikil fjölgun starfa við framleiðslu á endurnýjanlegri orku
Um 6,5 milljón manns störfuðu beint eða óbeint við framleiðslu á endurnýjanlegri orku árið 2013, en það er um 14% aukning frá árinu 2012 samkvæmt skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orku (IRENA) sem kom út í mánuðinum. Sólarrafhlöður skapa flest störfin, en samtals vinna nú 2,27 milljónir við framleiðslu, uppsetningu og viðhald á slíkum búnaði. Rekja má fjölgun starfa í þeirri grein að miklu leyti til aukinnar áherslu á nýtingu sólarorku í Kína. Jafnframt hefur verð á sólarrafhlöðum lækkað verulega vegna tæknilegra framfara og eftirspurn því aukist. Um 1,45 milljónir starfa við framleiðslu lífeldsneytis og 0,83 milljónir við vindorku.
(Sjá frétt the Guardian 12. maí).
Framleiðslugeta í vindorku jókst um 12,4% á milli ára
Samanlagt uppsett afl vindorkustöðva í heiminum jókst um 12,4% á milli áranna 2012 og 2013, úr 283 í rúm 318 gígavött (GW). Langmest var aukningin í Kína, þar sem 16 GW bættust við á árinu. Spár gera ráð fyrir enn meiri aukningu á þessu ári.
(Sjá frétt PlanetArk 6. febrúar).
Framleiðsla hafin í stærsta vindorkuveri Afríku
Síðastliðinn laugardag hófst raforkuframleiðsla í Ashegoda vindorkuverinu í Eþíópíu, en í þessu stærsta vindorkuveri Afríku eru 84 vindmyllur með samtals 120 MW uppsett afl. Framkvæmdir á svæðinu hófust árið 2009 og var heildarkostnaður við þær um 210 milljónir evra (tæpir 35 milljarðar ísl. kr.). Raforkuframleiðsla í Eþíópíu byggist að langmestu leyti á vatnsafli en stjórnvöld vilja auka fjölbreytnina, m.a. til þess að vera minna háð úrkomu. Auk vindorku eru uppi stór áform um nýtingu jarðvarma, m.a. í samstarfi við íslensk-ameríska fyrirtækið Reykjavík Geothermal.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Tímamót í Kattegat
Sl. mánudag urðu ákveðin þáttaskil í vindorkuframleiðslu í Danmörku þegar 36. myllan í Anholt vindmyllugarðinum í Kattegat var tekin í notkun. Þar með var uppsett afl vindorkustöðva úti fyrir ströndum Danmerkur komið í 1 GW, sem dugar fyrir u.þ.b. milljón heimili. Séu vindorkustöðvar á landi taldar með er uppsett afl vindorkustöðva í Danmörku að nálgast 4 GW. Bretar eru eina þjóðin í heiminum sem fær meiri raforku en Danir frá vindmyllum á hafi.
(Sjá frétt Teknisk Ukeblad í gær).
Raforkuframleiðsla hafin í London Array
Raforkuframleiðsla er hafin í London Array vindmyllugarðinum sem verður stærsta vindorkuverið í höfum heimsins þegar hann er kominn í full afköst. Búið er að setja upp 151 vindmyllu í garðinum, sem er staðsettur í óshólmum Thames-árinnar úti fyrir Kent og Essex. Stefnt er að því að samanlagt uppsett afl garðsins verði 870 megavött þegar upp er staðið. (Til samanburðar má nefna að uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW).
(Sjá frétt The Guardian í gær).