Brýnt að draga úr botnvörpuveiðum

fiskaforframtiden-160Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen beina því til sænska stjórnvalda að banna botnvörpuveiðar innan 12 mílna landhelgi og gera sitt til að styðja við krókaveiðar og gildruveiðar. Þessar ráðleggingar eru settar fram í nýrri skýrslu samtakanna, Fiskum til framtíðar, þar sem fiskveiðiaðferðir Svía eru kortlagðar. Botnvörpuveiðar eru langalgengasta veiðiaðferðin þar í landi en þeim fylgir mikil röskun á botni og þeim lífverum sem þar þrífast, hvort sem veiðunum er beint að þeim eður ei. Í skýrslunni er m.a. vísað í rannsóknir sem benda til að neikvæðra áhrifa veiðanna á fjölbreytileika lífríkisins gæti áratugum saman og jafnvel um alla framtíð.
(Sjá fréttatilkynningu Naturskyddsföreningen 16. september).

Botnskröpun jafnvel enn skaðlegri en talið var

Niðurstöður nýrrar spænskrar rannsóknar, sem sagt var frá á heimasíðu Nature í gær, benda til að veiðar með botnvörpu spilli landslagi og lífríki sjávarbotnsins jafnvel enn meira en áður var talið. Veiðarfærin jafni út ójöfnur á yfirborðinu, þyrli upp setlögum og færi þau til, raski eða útrými botnlífverum á svæðinu, blandi mengandi efnum saman við plöntu- og dýrasvif og þannig inn í fæðukeðjuna og stuðli að skaðlegum þörungavexti og súrefnisþurrð.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk í dag).