Meðalstyrkur koltvísýrings í andrúmslofti jarðar fór í fyrsta sinn yfir 400 milljónustuparta (ppm) í mars 2015 samkvæmt mælingum bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Mælingar frá einstökum stöðvum á norðurheimskautssvæðinu og á Hawaii hafa áður sýnt styrk yfir 400 ppm en heimsmeðaltalið hefur aldrei áður mælst svo hátt. Að mati NOAA þýðir þetta að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hefur hækkað vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum um meira en 120 ppm síðan fyrir iðnbyltingu og hefur helmingur af þessari losun (60 ppm) átt sér stað eftir 1980. Gjarnan er miðað við 400 ppm sem viðmiðunarmörk fyrir óafturkræfar breytingar á þjónustu vistkerfa.
(Sjá frétt NOAA 6. maí).
Greinasafn fyrir merki: koltvísýringur
Rafbílar gætu dregið verulega úr innflutningi eldsneytis
Rafbílavæðing Bretlands gæti þýtt um 40% samdrátt í innflutningi eldsneytis til ársins 2030 á sama tíma og bílstjórar myndu spara um 13 milljarða sterlingspunda (um 2.700 milljarða ísl. kr.) samkvæmt hagrannsóknum Háskólans í Cambridge. Jafnframt myndi þetta þýða um 47% samdrátt í losun koltvísýrings, auk mikils samdráttar í útblæstri köfnunarefnisoxíðs og svifryks, sem gæti einn og sér sparað heilbrigðiskerfinu milljarð punda. Í rannsókninni er gert ráð fyrir að um 6 milljónir rafbíla verði á götum Bretlands árið 2030, en þróunin veltur þó á því að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu innviða. Þétt og öruggt net hleðslustöðva dregur verulega úr drægnikvíða (e. range anxiety) sem er ein helsta ástæða þess að almenningur hikar við að breyta yfir í rafbíla. Á sama tíma og rafbílavæðing getur dregið verulega úr kostnaði vegna öndunarfærasjúkdóma myndi hún skapa 7.000-19.000 ný störf og verg þjóðarframleiðsla myndi aukast vegna minni innflutnings olíu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Skip skylduð til að mæla CO2-losun
Evrópusambandið hefur samþykkt nýjar reglur sem skylda skipafélög til að mæla koltvísýringslosun skipaflotans frá og með árinu 2018. Reglurnar eru fyrsta skref ESB til að draga úr losun frá skipum en alþjóðlegir skipaflutningar eru ábyrgir fyrir um 3% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Ákvörðun ESB er rökstudd með útreikningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem sýna að ef ekkert verður að gert muni losun vegna skipaflutninga verða komin í 18% af heildarlosuninni árið 2050. Hinar nýju reglur kveða ekki á um losunarþak, heldur skuldbinda þær flutningaskip yfir 5.000 tonnum til að fylgjast með losuninni. Alþjóðlegir skipaflutningar munu því enn um sinn standa utan við viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir (e. Emission Trading Scheme (ETS)). Engu að síður telur umhverfisráðherra Ítalíu, sem nú gegnir hlutverki formennskuríkis í sambandinu, að reglugerðin hafi mikið gildi í pólitísku og tæknilegu tilliti.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Nýjar kynslóðir fiska venjast ekki súrum sjó
Svo virðist sem nýjar kynslóðir fiska eigi jafnerfitt með að aðlagast háum styrk koltvísýrings í sjónum og forfeður þeirra. Þetta kemur fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Nature Climate Change. Þetta þykir benda til þess að sjávardýr muni aldrei ná að aðlagast að fullu því breytta umhverfi sem loftslagsbreytingarnar hafa í för með sér og að áhrifin muni þannig ekki aðeins bitna á þeim kynslóðum sem nú lifa, heldur einnig á fiskistofnum framtíðarinnar.
(Sjá frétt ENN 6. október).
Hærri styrkur koltvísýrings dregur úr næringargildi plantna
Járn- og sinkinnihald í nytjaplöntum mun lækka verulega eftir því sem styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hækkar, samkvæmt því sem fram kemur í grein ísraelskra vísindamanna í tímaritinu Nature. Höfundar telja þennan mikla samdrátt í snefilefnainnihaldi plantna vera eina af hættulegustu afleiðingum loftslagsbreytinga fyrir heilsu manna. Ef spár um styrk koltvísýrings í andrúmslofti fram til ársins 2050 ganga eftir má ætla að um það leyti hafi efnainnihaldið breyst verulega. Í dag þjást um 2 milljarðar manna af járn- og sinkskorti og 63 milljónir láta lífið árlega sökum vannæringar. Höfundar greinarinnar orða það svo, að þessi næringarefnaskortur verði ein af mörgum óvæntum afleiðingum þeirrar risavöxnu tilraunar sem mannkynið geri nú á eigin tilverugrundvelli.
(Sjá frétt ENN í dag).