Ein af hverjum þremur tegundum tyggigúmmís á dönskum markaði inniheldur hormónaraskandi efni samkvæmt athugun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Átján af 62 tegundum sem kannaðar voru reyndust innihalda efnið bútýlhýdroxýanisól (BHA) sem notað er sem rotvarnarefni í ýmsar matvörur, en er jafnframt á lista ESB yfir efni sem trufla hormónastarfsemi líkamans. Anja Philip, formaður neytendasamtakanna, segir ólíklegt að efnið hafi mikil áhrif í því magni sem finna má í tyggjói. Hins vegar geti það stuðlað að kokteiláhrifum í samspili við önnur efni. BHA er talið geta haft áhrif á frjósemi auk þess sem efnið eykur líkurnar á krabbameini í eistum.
(Sjá frétt Politiken í gær og tyggjólista Tænk).
Greinasafn fyrir merki: börn
Náttúruupplifun bætir heilsuna
Börn sem upplifa náttúruna á meðan þau stunda íþróttir eru líklegri til að uppskera jákvæð áhrif á heilsu samkvæmt nýrri rannsókn frá háskólanum í Coventry. Í rannsókninni voru börn á aldrinum 9-10 ára látin stunda hóflega líkamsrækt á meðan þau horfðu á myndband úr skógi annars vegar og án sjónrænna hvata hins vegar. Í ljós kom að blóðþrýstingur barnanna sem stundaði íþróttir „í skóginum“ var um 5% lægri að æfingu lokinni en án myndbands. Lágur blóðþrýstingur minnkar líkur á heilsufarsvandamálum, en hár blóðþrýstingur getur haft neikvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi. Dr.Michael Duncan, sem stjórnaði rannsókninni, segir niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld skilji jákvæð áhrif náttúruupplifunar á lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily í gær).
Dýnur í barnarúmum gefa frá sér skaðleg efni
Dýnur í barnarúmum geta gefið frá sér hættuleg efnasambönd. Þetta kom fram við rannsókn vísindamanna við Háskólann í Austin í Texas, þar sem skoðaðar voru 20 mismunandi dýnur. Algengast var að dýnurnar gæfu frá sér rokgjörn lífræn efni (VOCs) sem fyrirfinnast í pólýúretan- og pólýestersvampi í dýnunum. Losun efnanna eykst eftir því sem líkamhiti barnsins hækkar og er mest á því svæði sem andardráttur barnsins nær til. Þá reyndist styrkur efnanna um fjórfalt hærri í nýjum dýnum en gömlum. Talið er að loftmengun innanhúss geti haft mikil áhrif á þroska ungbarna og þá sérstaklega mengun nálægt svefnstað, enda sofa ungabörn um 50-60% af tíma sínum.
(Sjá frétt ENN í gær).
Hættuleg efni í burðarpokum
Nokkrar tegundir burðarpoka fyrir börn innihalda efni sem talin eru líklegir krabbameinsvaldar, geta truflað hormónastarfsemi líkamans og dregið úr frjósemi. Þetta kom í ljós í könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk í síðasta mánuði. Þar voru tólf mismunandi vörur af þessu tagi teknar til skoðunar og reyndust þrjár þeirra innihalda hættuleg efni. Þetta voru burðarpokar af tegundunum Britax og Stokke MyCarrier og burðarsjalið Babylonia BB-sling. Tvær þær fyrrnefndu innhéldu varasöm eldvarnarefni og í burðarsjalinu leyndust nonýlfenólethoxýlöt (NPE). Nýlega var samþykkt að banna notkun tiltekinna eldvarnarefna í leikföng innan ESB en bannið nær ekki til burðarpoka, enda þótt börn komist ekki síður í nána snertingu við þá en við leikföngin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).
Dýru barnafötin líka eitruð
Helstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).
Hættuleg efni í barnafötum
Hættuleg efni fundust í 76 af 82 barnaflíkum sem skoðaðar voru í nýrri könnun Greenpeace. Styrkur efnanna var yfirleitt undir hættumörkum, en Greenpeace bendir á að eiturefni eigi ekkert erindi í barnaföt, enda nóg til af öðrum skaðminni efnum sem hægt sé að nota í staðinn. Vissulega skolast mikið af þessum efnum úr fötunum í fyrsta þvotti, en þá berast þau út í umhverfið þar sem þau geta skaðað lífríkið.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 14. janúar).
Hættuleg efni í leikföngum
Rúmur helmingur af 30 tegundum tréleikfanga fyrir börn að þriggja ára aldri sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Stiftung Warentest reyndust innihalda hættuleg efni. Um var að ræða efni á borð við PAH, lífræn tinsambönd, blý, hættuleg litarefni og formaldehýð, þ.e.a.s. efni sem geta verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi svo eitthvað sé nefnt. Efnin fundust einkum í lakki, snúrum, netum og krossviði.
(Sjá frétt á heimasíðu Stiftung Warentest 21. nóvember).