Landbúnaður í þéttbýli verður æ mikilvægari fyrir fæðuöryggið í heiminum samkvæmt nýrri rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Environmental Research Letters á dögunum. Hópur vísindamanna notaði gervitunglamyndir til að skoða landbúnaðarstarfsemi innan 20 km fjarlægðar frá þéttbýli og komst að því að þessi starfsemi nýtir land á stærð við allt Evrópusambandið. Vísindamennirnir benda á að stefnumótun í landbúnaði taki einungis til starfsemi í dreifbýli og geri þannig lítið úr framlagi borgarlandbúnaðar. Landbúnaður í þéttbýli færi neytendann nær framleiðslunni, auk þess sem ræktunin geti átt stóran þátt í vatnsstjórnun. Þannig er áætlað að ræktun í Accra, höfuðborg Ghana, hreinsi meira skólp en allar skólphreinsistöðvar í borginni. Hingað til hefur gjarnan verið litið á landbúnað í þéttbýli sem „dropa í hafið“ en rannsóknin er ein fyrsta sönnun þess að þessi starfsemi hafi verið stórlega vanmetin.
(Sjá frétt BBC 25. nóvember).