Í nýrri úttekt sem European Environmental Bureau (EEB) vann fyrir Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að með því að láta framleiðendur rafeindatækja greiða mishá úrvinnslugjöld eftir umhverfislegu ágæti tækjanna sem þeir framleiða, megi fá þá til að leggja meiri áherslu á vistvæna hönnun. Hingað til þykir framleiðendaábyrgð á rafeindatækjum ekki hafa skilað sér í aukinni framleiðslu á umhverfisvænni tækjum, eins og þó var stefnt að þegar framleiðendaábyrgðin var innleidd með samþykkt svonefndrar WEEE-tilskipunar Evrópusambandsins. Skilagjald á lítil rafeindatæki er meðal annarra tillagna sem settar eru fram í úttektinni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 22. nóvember).