Ríkustu þjóðir heims (G20) eyða um 88 milljörðum bandaríkjadala (um 11.000 milljörðum ísl. kr.) í styrki til olíu- og gasvinnslu þrátt fyrir að ekki megi vinna nema hluta þess eldsneytis sem til staðar er í þekktum lindum ef takast á að sporna við loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í skýrslunni The fossil fuel bailout sem Overseas Development Institute (ODI) og Oil Change International (OCI) gáfu út á dögunum. Þar er einnig bent á að á tímum aukins kostnaðar við olíu- og gasvinnslu og lækkandi afurðaverðs haldi opinberir styrkir vinnslunni gangandi. Á sama tíma fari stofnkostnaður vegna endurnýjanlegra orkugjafa ört lækkandi og áhugi fjárfesta vaxandi. Fjárfesting einkageirans í endurnýjanlegri orku sé nú um 2,5 dollarar fyrir hvern dollar sem hið opinbera leggur í greinina, en aðeins um 1,3 dollarar á hvern dollar af opinberum styrkjum til framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Skýrsluhöfundar telja að afnám þeirra styrkja myndi vera stórt skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu greinanna.
(Sjá frétt EDIE í dag).