Ioane Teitiota, 37 ára fjölskyldufaðir frá Kiribati, hefur farið þess á leit við áfrýjunardómstól í Auckland á Nýja-Sjálandi að hann snúi við fyrri ákvörðun um að synja Ioane um hæli sem loftslagsflóttamaður. Upphaflega ákvörðunin var byggð á því að lagarök skorti, þar sem lífi umsækjandans væri ekki ógnað þótt hann sneri til fyrri heimkynna. Ione heldur því fram að fjölskyldan sé ekki óhult á Kiribati, þar sem hækkað sjávarborð sé þegar farið að leiða til mengunar drykkjarvatns, uppskerubrests og eyðileggingar heimila í flóðum. Flóttamannalöggjöfin sé úrelt að því leyti að hún nái ekki til loftslagsógna. Kiribati er eyjaklasi á Suður-Kyrrahafi, og er meðalhæð lands þar aðeins um 2 m.y.s. Yfirvöld þar hafa keypt land á Fijieyjum þar sem áformað er að reisa byggðir fyrir fólk frá Kiribati. Einnig er unnið að menntunarátaki undir yfirskriftinni „þjóðflutningar með reisn“, sem ætlað er að búa íbúa sem best undir vistaskiptin.
(Sjá frétt PlanetArk 17. október).