Náttúruverndarsinnar í Bretlandi hafa miklar áhyggjur af áformum þarlendra stjórnvalda um að aflétta banni við uppsetningu farsímamastra og loftlína í Vatnahéraði (e. Lake District), einu helsta náttúrverndarsvæði Bretlands. Frumvarp um þessa tilslökun verður væntanlega rætt í breska þinginu á næstu vikum, en tilgangurinn er að auka hagvöxt og flýta fyrir 4G- og breiðbandsvæðingu landsbyggðarinnar. Þetta telja náttúruverndarsinnar vel hægt að gera án þess að breyta ásýnd Vatnahéraðs, enda hafi héraðið mikla þýðingu fyrir þjóðina, bæði í vistfræðilegu, hagrænu og menningarlegu tilliti.
(Sjá frétt The Guardian 3. nóvember).