Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).
Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized
Gleðilegt sumar!
Umhverfisfróðleikssíðan 2020.is óskar lesendum sínum gleðilegs sumars með von um að sumarið verði hæfilega hlýtt og fullt af skemmtilegum sumarfríum með litlum neikvæðum áhrifum á umhverfið!
Páskafrí
Umhverfisfróðleikssíðan 2020.is er í páskafríi. Næsti fróðleiksmoli birtist á síðunni þriðjudaginn 29. mars 2016. Upplagt er að nýta tímann þangað til til að lesa eldri fróðleiksmola. Jafnframt er ærin ástæða til að forðast matarsóun um páskana. Gleðilega hátíð!
Jólafrí
Vefsíðan 2020.is óskar lesendum sínum gleðilegra jóla, þakkar þeim samfylgdina á árinu og óskar þeim friðar og farsældar sem er gerð til að endast. Fyrsti umhverfisfróðleiksmolinn á nýju ári mun birtast á síðunni fimmtudaginn 7. janúar 2016.
Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“
Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).
Fljótandi vindmyllur við Skotland
Ríkisstjórn Skotlands hefur veitt leyfi fyrir stærsta fljótandi vindorkugarði heims sem olíurisinn Statoil ætlar að setja upp út af austurodda Skotlands við Peterhead. Þarna verður komið fyrir fimm fljótandi 6 MW vindmyllum og er vonast til að þær geti samtals framleitt 135 GWst af raforku á ári, sem nægir u.þ.b. 20 þúsund heimilum. Ætlunin er að hefjast handa við verkefnið á næsta ári. Með þessu vill Statoil sýna fram á að tæknin sé samkeppnishæf, en fljótandi vindorkugarðar eru frábrugðnir hefðbundnum vindorkugörðum í hafi að því leyti að vindmyllurnar standa ekki á botni, heldur fljóta þær í yfirborðinu, eru tengdar saman með rafmagnsköplum og haldið stöðugum með akkerum. Tæknin nýtist þar af leiðandi á mun dýpri hafsvæðum en ella. Rannsóknir benda til að stofnkostnaður stórra verkefna af þessu tagi geti farið niður í 85 sterlingspund/MWst, en meðalkostnaður við botnfasta vindorkugarða er um 112 pund/MWst.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Sumarleyfið framlengt
Umhverfisfróðleikssíðan 2020.is verður næst uppfærð mánudaginn 24. ágúst 2015.
Sumarleyfi
Umhverfisfróðleikssíðan 2020.is er í sumarleyfi og verður næst uppfærð mánudaginn 10. ágúst 2015.
Páskafrí
Vefsíðan 2020.is óskar lesendum sínum gleðilegra páska og hvetur til að hófsemi sé höfð að leiðarljósi yfir hátíðarnar. Næsti umhverfisfróðleiksmoli mun birtast á síðunni þriðjudaginn 7. apríl 2015.
