Stjórn Græna loftslagssjóðsins (e. Green Climate Fund (GCF)) samþykkti fyrstu átta styrkveitingar sjóðsins á dögunum, samtals að fjárhæð 168 milljónir Bandaríkjadala (um 22 milljarðar ísl. kr.). Þar með er starfsemi sjóðsins formlega hafin, en sjóðurinn var stofnaður á loftslagsráðstefnunni COP16 í Cancún haustið 2010. Sjóðurinn er að mestu fjármagnaður af iðnríkjunum og er ætlað að styðja við loftslagsverkefni í þróunarlöndum, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að auðvelda aðlögun samfélaga að loftslagsbreytingum. Af þessum fyrstu átta verkefnum eru þrjú í Afríku, þrjú á Kyrrahafssvæðinu og tvö í Suður-Ameríku. Gert er ráð fyrir að þessi verkefni muni leiða af sér fjárfestingar fyrir samtals 1,3 milljarða dala (um 170 milljarða ísl. kr.) á næstu fimm árum.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í dag).