Styrkur díklórómetans og fleiri lítt þekktra skammlífra ósoneyðandi efna í andrúmsloftinu hefur hækkað verulega samkvæmt rannsókn sem sagt var frá í Nature Geoscience á dögunum. Ekki var tekið tillit til þessara efna við gerð Montreal bókunarinnar um ósoneyðandi efni, þar sem þau þóttu síður mikilvæg en önnur efni sem staldra lengur við í andrúmsloftinu. Styrkur þessara efna hefur hins vegar hækkað svo hratt að vísindamenn óttast að þróunin dragi úr árangri bókunarinnar. Í greininni í Nature kemur einnig fram að þörf sé á auknum mælingum til að hægt sé að greina betur uppsprettu vandans og grípa til viðeigandi ráðstafana. Að öðrum kosti blasi við vaxandi óvissa í spám um þróun ósonlagsins og loftslagsins á jörðinni.
(Sjá frétt ENN 17. febrúar).