Osló losar allt sitt fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

oslodivest750 (160x84)Osló er fyrsta höfuðborgin í heiminum sem ákveður að losa um allar fjárfestingar sínar í kola-, olíu- og gasfyrirtækjum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þetta þýðir að fjárfesting upp á 9 milljarða Bandaríkjadala (um 1.125 milljarða ísl. kr.) verður færð úr jarðefnaeldsneyti í aðrar greinar. Þessi fjárlosun er hluti af málefnasamningi nýs meirihluta græningja, jafnaðarmanna og vinstri manna í borgarstjórn. Áður hafa 45 borgarstjórnir víða um heim tekið sambærilega ákvörðun um fjárlosun, en sem fyrr segir er Osló fyrsta höfuðborgin sem stígur þetta skref.
(Sjá frétt EcoWatch 19. október).

Ríkissjóður Noregs dregur úr „svörtum fjárfestingum“

deinvestNorska ríkið hefur samþykkt að láta af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Þessi ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum. Samþykktin þýðir að norska ríkið mun selja eignir upp á u.þ.b. 8 milljarða Bandaríkjadala (um 1.000 milljarða ísl. kr.) og mun aðgerðin hafa áhrif á rúmlega 120 fyrirtæki sem stunda vinnslu jarðefnaeldsneytis. Ráðamenn í Noregi segja ákvörðunina ekki einungis vera tekna til að reyna að sporna við loftslagsvandanum heldur séu slíkar fjárfestingar einnig áhættusamar vegna sífellt strangari krafna Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir fjárlosun (e. divestment) í jarðefnaeldsneytisgeiranum telja að ákvörðun Norðmanna muni gefa tóninn fyrir önnur ríki og fjárfestingarsjóði.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Skorað á lífeyrissjóði að hætta „svörtum fjárfestingum“

green_finance_160Félagar í sex lífeyrissjóðum í Danmörku undirbúa nú tillögu um að sjóðirnir láti af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í orkufyrirtækjum sem byggja afkomu sína á vinnslu jarðefnaeldsneytis. Samtals eru um 200.000 félagar í þessum lífeyrissjóðum og nema fjárfestingarnar alls um 32 milljörðum evra (um 4.700 milljörðum ísl. kr.). Svipuð tillaga kom fram á síðasta ári en var þá felld. Aðstandendur tillögunnar eru hluti af loftslagshreyfingu á heimsvísu sem hefur nú þegar fengið um 180 stofnanir til að draga til baka fjárfestingar í kola-, olíu og gasvinnslu upp á samtals allt að 47 milljörðum evra. Hreyfingin telur að til að hægt verði að komast hjá skelfilegum afleiðingum loftslagsbreytinga þurfi fjárfestar að axla ábyrgð með því að leggja áherslu á „grænar fjárfestingar“.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Styrkir til olíu- og gasvinnslu vinna gegn endurnýjanlegum orkugjöfum

fossil-fuel-bailoutRíkustu þjóðir heims (G20) eyða um 88 milljörðum bandaríkjadala (um 11.000 milljörðum ísl. kr.) í styrki til olíu- og gasvinnslu þrátt fyrir að ekki megi vinna nema hluta þess eldsneytis sem til staðar er í þekktum lindum ef takast á að sporna við loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í skýrslunni The fossil fuel bailout sem Overseas Development Institute (ODI) og Oil Change International (OCI) gáfu út á dögunum. Þar er einnig bent á að á tímum aukins kostnaðar við olíu- og gasvinnslu og lækkandi afurðaverðs haldi opinberir styrkir vinnslunni gangandi. Á sama tíma fari stofnkostnaður vegna endurnýjanlegra orkugjafa ört lækkandi og áhugi fjárfesta vaxandi. Fjárfesting einkageirans í endurnýjanlegri orku sé nú um 2,5 dollarar fyrir hvern dollar sem hið opinbera leggur í greinina, en aðeins um 1,3 dollarar á hvern dollar af opinberum styrkjum til framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Skýrsluhöfundar telja að afnám þeirra styrkja myndi vera stórt skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu greinanna.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Fjárfestar kalla eftir aðgerðum í loftslagsmálum

Hópur nokkurra stærstu fagfjárfesta heims hafa sent ríkisstjórnum leiðandi ríkja bréf, þar sem varað er við því að lífeyrissparnaður og fjárfestingar milljóna manna séu í hættu verði ekki gripið til markvissra aðgerða til að afstýra hættulegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Í bréfinu er kallað eftir víðtæku samráði stjórnvalda og fjárfesta um stefnumótun í loftslagsmálum með það að markmiði m.a. að stórauka fjárfestingar í kolefnissnauðri tækni og setja metnaðarfull markmið um samdrátt í losun. Bréfið kemur í kjölfar svartrar skýrslu Alþjóðabankans um horfur í loftslagsmálum og nokkrum dögum fyrir 18. fund aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Doha.
(Sjá frétt Business Green 20. nóvember).

Kínverjar setja 39.000.000.000.000 kr. í orkusparnað

Kínversk stjórnvöld kynntu á dögunum þá fyrirætlan sína að setja jafnvirði 372 milljarða bandaríkjadala (um 39 þús. milljarða ísl. kr.) í verkefni til að bæta orkunýtingu í landinu. Þetta er liður í áætlun Kínverja um að minnka orkunotkun á hverja framleiðslueiningu í iðnaði um 21% milli áranna 2010 og 2015 og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hverja einingu í landsframleiðslu um 40-45% milli áranna 2005 og 2020. Hvað sem þessum áformum líður jókst heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Kína um 9% á síðasta ári og nemur nú 29% af losun á heimsvísu.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk 23. ágúst sl).