Miklar líkur eru á að húsgögn og gólfefni úr ólöglegu timbri séu seld í Evrópu þrátt fyrir reglur sem banna slík viðskipti. Í nýrri úttekt WWF kemur fram að á síðan um aldamót hafi útflutningur á timbri frá austasta hluta Rússlands verið tvöfalt til fjórfalt það magn sem leyft er að fella og vinna á þeim slóðum. Timbrið er að mestu leyti flutt til Kína þar sem framleidd eru úr því húsgögn og gólfefni, sem síðan eru m.a. flutt út til Evrópu. Skógarhöggið spillir búsvæðum Síberíutígursins, sem er í mikilli útrýmingarhættu, auk þess sem það bitnar á frumbyggjum og samfélögum þeirra. Stjórnvöld í Rússlandi hafa ekki náð að stöðva þessa starfsemi og því brýnir WWF það fyrir vestrænum fyrirtækjum og neytendum að huga betur að uppruna varnings úr timbri og kaupa helst FSC-vottaðar vörur.
(Sjá frétt á heimasíðu WWF í Svíþjóð í gær).